Þrjár ferðaskrifstofur hafa í samráði við Icelandair skipulagt loftbrú frá Kanaríeyjum til Íslands í gegnum Las Palmas og Tenerife á næstu fjórum dögum. Er farið í þessar aðgerðir til að flýta för þeirra fjölmörgu Íslendinga sem eru staddir á eyjunum og áttu bókað flug heim fyrir páska.
Ferðaskrifstofurnar eru VITA, Ferðaskrifstofa Íslands og Heimsferðir. Í tilkynningu kemur fram að um sé að ræða 15 ferðir á næstu fjórum dögum, en aðgerðin er einnig unnin í samstarfi við Ferðamálastofu. Á vegum þessara ferðaskrifstofa eru á milli tvö og þrjú þúsund manns á eyjunum. Reiknað er með að allir farþegar ferðaskrifstofanna verði komnir heim á föstudag.
Auk þessa mun ferðaskrifstofan VITA hefja sölu á almennum flugferðum sem áætlaðar eru seinnipartinn á föstudag frá bæði Tenerife og Kanarí. Flugi verður bætt við ef mikil eftirspurn verður. Tekið er fram í tilkynningunni að markmiðið sé að gefa öllum þeim sem ekki hafa gert ráðstafanir til að komast aftur heim til Íslands tækifæri til þess á næstu dögum.