Guðni T. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú hafa ávarpað starfslið Landspítala Íslands frá Bessastöðum þar sem þau þakka því innilega fyrir framlag sitt vegna kórónuveirunnar.
„Við stöndum núna í ströngu, allir íbúar landsins. Saman munum við vinna bug á veirunni, þessum skæða vágesti.
Já, saman reynum við að stemma stigu við henni í samfélaginu, verja þá sem eru veikastir fyrir, verja líf og heilsu fólks. Við erum öll í sama liði núna, en einna mest mæðir á ykkur. Við þykjumst vita að vandinn verði meiri áður en við getum fagnað sigri. En sigri munum við fagna. Og þá munum við vita hverjum helst beri að þakka,“ segir í ávarpinu.
„Nú finnum við vel hversu dýrmætt það er hverju samfélagi að eiga öflugt heilbrigðiskerfi, öflugt heilbrigðisstarfsfólk. Heiður þeim sem heiður ber. Kæru vinir á Lansanum, kæru þið: Þjóðin stendur í þakkarskuld við ykkur, þjóðin stendur þétt að baki ykkur og hvikar hvergi. Gangi ykkur áfram vel.“
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.