Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms um að Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri Hringbrautar, þurfi að greiða tveimur karlmönnum 250 þúsund krónur í miskabætur vegna fréttar sem birtist á vef Hringbrautar í tengslum við Hlíðamálið svokallaða.
Mennirnir höfðu krafist ómerkingar á ummælum í átta liðum, en dómstólar féllust á að ómerkja ætti þrjú ummælin. Þar kom meðal annars fram að meðal nemenda Háskólans í Reykjavík gengi sú saga að mennirnir hefðu haft fleiri fólskuverk í hyggju og að tekist hefði að koma í veg fyrir þriðju nauðgunina.
Mikið uppþot varð í samfélaginu í kringum málið og voru karlmennirnir tveir sagðir hafa sérútbúið umrædda íbúð til brota sinna og að fórnarlömb þeirra hefðu verið fleiri en eitt. Eftir að málið var fellt niður af saksóknara stefndu mennirnir tveir fjórum fréttamönnum vegna skrifa þeirra um málið og voru samtals 13 ummæli dæmd ómerk og voru 365 miðlar og fréttamennirnir dæmdir til að greiða skaðabætur.
Fram kemur í dómi Landsréttar að umfjöllun Hringbrautar hafi að mestu byggt á umfjöllun Fréttablaðsins af málinu, en hún hafi greint sig frá með því að segja að mennirnir hefðu verið stöðvaðir við undirbúning að þriðju nauðguninni.
Héraðsdómur sagði Hringbraut hafa brugðist skyldum sínum með skrifunum og afvegaleitt umræðu um mennina tvo. Í dómi Landsréttar segir að í málinu vegist á tvenns konar stjórnarskrárvernduð réttindi. Annars vegar friðhelgi einkalífs og hins vegar tjáningarfrelsið. Segir í dóminum að fjölmiðlum verði að vera játað talsvert svigrúm í tengslum við umfjöllun um kynferðisbrot, en að í umræddum hluta umfjöllunar Hringbrautar hafi hvorki verið byggt á endursögn úr öðrum fjölmiðlum, gildisdómum annarra á þeim fréttum né ætluðum brotum mannanna til rannsóknar, heldur hafi fyrirsögn gefið til kynna staðhæfingu byggða á traustrum staðreyndargrunni.
Síðar var spurningarmerki bætt aftan við fyrirsögn fréttarinnar „Komið í veg fyrir þriðju nauðgunina?“ en Sigmundur gat fyrir dómi ekki skýrt af hverju eða hvenær það hafi gerst. Kemur fram í dóminum að þótt nöfn mannanna hafi ekki komið fram í fréttinni, hafi nöfn þeirra þegar verið birt á samfélagsmiðlum og að fréttamanninum hafi mátt vera ljóst að hún yrði sérlega þungbær fyrir mennina og fallin til að auka enn frekar á þá reiði og fordæmingu sem beindist gegn persónum þeirra á samfélagsmiðlum og í opinberri umræðu.
„Kjarni málsins er að fréttamaðurinn reyndi ekki með neinum hætti að renna stoðum undir sögusagnir, auk þess sem fyrirsögn fréttarinnar bar með sér staðhæfingu um að komið hefði verið í veg fyrir þriðja brotið,“ segir í niðurstöðum dómsins. Eru ummælin sögð óviðurkvæmileg og er fallist á ómerkingu ummælanna og miskabætur.
Til viðbótar þarf að birta og gera grein fyrir forsendum dómsins á vefmiðlinum Hringbraut.is innan sjö daga að viðurlögðum 50 þúsund króna dagsektum. Þá er Sigmundi gert að greiða mönnunum 372 þúsund krónur hvorum í málskostnað.