Alls eru 473 smitaðir af kórónuveirunni á Íslandi samkvæmt nýjum tölum á vefnum covid.is. Þetta er fjölgun um 64 frá því fyrir sólarhring og hefur því smituðum fjölgað um 223 síðustu þrjá daga.
Alls eru 5.448 í sóttkví en 753 hafa lokið sóttkví. Tekin hafa verið 9.768 sýni og sex eru á sjúkrahúsi. Upplýsingar um fjölda smitaðra eru birtar á vefnum covid.is klukkan 11 á hverjum degi.
Þar kemur fram að alls eru 404 smitaðir á höfuðborgarsvæðinu og 3.751 í sóttkví. Á Suðurlandi eru 34 smitaðir og 591 í sóttkví. Á Norðurlandi vestra eru fjórir smitaðir og 289 í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru tvö smit og 210 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 23 smitaðir og 245 í sóttkví. Á Austurlandi er enginn smitaður en 23 í sóttkví. Á Vestfjörðum er einn smitaður og 129 í sóttkví. Enginn er smitaður á Vesturlandi en þar eru 167 í sóttkví. Óstaðsettir eru fimm smitaðir og 39 í sóttkví og fjórir útlendingar eru í sóttkví.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar fyrir blaðamenn klukkan 14:00 í dag.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller landlæknir munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19, staðfestra smita hér á landi, aðgerða stjórnvalda o.fl.
Á fundinum verður sérstaklega beint sjónum að Landspítala og mun Páll Matthíasson fara yfir aðgerðir á spítalanum.