„Við stöndum öll saman í þessu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kynntu aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins.
Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna kynntu á blaðamannafundi í Hörpu aðgerðir til að örva atvinnu- og efnahagslíf vegna faraldursins
Katrín sagði að ríkisstjórnin hefði, líkt og stjórnvöld í öðrum löndum, takmarkaða þekkingu á aðstæðunum en allir stæðu saman í baráttunni gegn þeim vágesti sem kórónuveiran er.
Hún sagði að fáir hefðu séð fyrir sér í upphafi árs að Bandaríkin yrðu búin að loka landamærum sínum, landamærum Schengen-ríkja væri lokað og mörg ríki Evrópu einnig búin að loka sínum landamærum.
„Það er tómlegt á götunum og það er langt síðan maður hefur séð fólk faðmast og kyssast,“ sagði Katrín.
Verja afkomu fólks í landinu, verja afkomu fyrirtækja í landinu, verja grunnstoðir samfélagsins og svo snýr fjórða markmiðið að viðspyrnu. Hún sagðist vita að um tímatundnar þrengingar væri að ræða og að samfélagið gæti spyrnt hratt við fótum þegar færi að rofa til.
Katrín sagði aðgerðir Seðlabanka, sem kynntar voru í vikunni, gríðarlega mikilvægar fyrir hagstjórnina og þær veittu fyrirtækjum nauðsynlegt súrefni.
„Það er ríkur vilji til að standa saman og við getum leyst úr málum sameiginlega. Við látum hversdagsleg þrætuefni liggja á milli hluta á meðan við stöndum í þessu stríði,“ sagði Katrín.
Ákveðið hafi verið að flýta opinberum framkvæmdum ríkissjóðs.
Katrín nefnir sérstaklega sérstakan barnabótaauka. Mikið álag hafi verið á barnafjölskyldum þar sem skólastarf hafi riðlast og því verði greiddar út til allra barnafjölskyldna á vormánuðum; tekjutengdar og skattfrjálsar greiðslur.
„Heildarumsvif allra þessara aðgerða eru um 230 milljarðar króna,“ sagði Katrín og bætti við að þetta sýndi að ríkisstjórnin stæði með fólkinu í landinu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði um að ræða aðgerðir án hliðstæðu. Það ætti frekar að gera of mikið en of lítið til að létta undir með fólki og fyrirtækjum.
Allir ættu að vera öruggir um framfærslu, sagði fjármálaráðherra. „Um er að ræða stærstu efnahagsaðgerðir sögunnar,“ sagði Bjarni.
Fjármálaráðherra sagði íslenska ríkið vera í góðri stöðu til að takast á við áföll og því væri hægt að grípa til aðgerða.
Hann sagði laun þeirra sem yrðu fyrir áhrifum veirunnar tryggð og nefndi í því samhengi að ríkisstjórnin væri til í að verja háum fjárhæðum til að tryggja afkomu fólks sem færi í skert starfshlutfall.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.