Allir íbúar Húnaþings vestra í sóttkví

Hvammstangi.
Hvammstangi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Vegna grunsemda um víðtækt smit í Húnaþingi vestra hefur verið ákveðið að grípa þar til hertra sóttvarnaaðgerða. Frá klukkan 22 í kvöld, laugardaginn 21. mars, skulu allir íbúar sveitarfélagsins sæta úrvinnslusóttkví. 

Úrvinnslusóttkví er tímabundin ráðstöfun meðan unnið er að smitrakningu og í henni felst að einungis einn aðili af hverju heimili getur í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga, að því er segir í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra.

Þar segir að úrvinnslusóttkvíin gildi ekki um lífsnauðsynlega starfsemi, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og dreifingu og verslun með matvæli og eldsneyti.

Jafnhliða gildir almennt samkomubann svo sem þegar hefur verið auglýst en þó með þeirri breytingu að hámarksfjöldi aðila sem mega koma saman í Húnaþingi vestra eru fimm aðilar. Höfðað er til samfélagslegrar ábyrgðar allra íbúa til að virða ofangreint og vera alls ekki á ferli að nauðsynjalausu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert