Laufey Blöndal er 28 ára gömul flugfreyja hjá Icelandair. Hún er nú stödd í einangrun heima hjá sér og því fer samtalið fram í gegnum síma. Það er létt yfir henni þótt einangrunin sé farin að taka á, en Laufey reynir að halda í gleðina.
Laufey segist að öllum líkindum hafa smitast af kórónuveirunni í vinnunni.
„Ég var í München-fluginu miðvikudaginn 4. mars. Það kom síðar í ljós að í þessu flugi var fólk sem var smitað af veirunni,“ segir hún.
„Ég kom heim úr vinnunni á mánudaginn 9. mars úr Ameríkuflugi og lagði mig og vaknaði með hita og var slöpp. Ég ákvað að vera heima og reyna að sofa þetta úr mér en var enn með hita daginn eftir. Mamma hvatti mig til að hringja í 1700, sem ég gerði, og ég var send í sýnatöku á heilsugæsluna. Á fimmtudeginum 12. mars fékk ég svarið, að ég væri jákvæð. Ég hef ekki farið út úr íbúðinni síðan ég fór í sýnatökuna.“
Hvernig var að fá þessar fréttir?
„Þetta var ekkert svo mikið sjokk. En auðvitað var alveg óþægilegt að heyra þetta og ég er ekkert að gera lítið úr þessum sjúkdómi en í raun er ég bara heima hjá mér með flensu. Mér hefur ekki liðið neitt mjög illa. Ég er ung og ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma þannig að maður er að reyna að halda í jákvæðnina. Ég hef hingað til verið með væg einkenni; hósta og hita. Ég er samt búin að vera með hita í viku og er enn með hita. Ég mæli mig of oft á dag,“ segir hún og hlær.
Hvaða ráð myndir þú gefa fólki sem smitast?
„Ég held það sé ótrúlega mikilvægt að halda jafnaðargeði og huga að líkama og sál. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvað þetta er líka erfitt andlega. Þó að ég geti hringt í fólk er ég bara ein heima.“
Ítarlegra viðtal er við Laufeyju í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.