Ólíklegt er að þær efnahagsaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í dag dugi til að koma til móts við heimili og fyrirtæki í landinu. Þetta er mat Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Hann telur öruggt að ekki líði á löngu þar til kynna þarf frekari aðgerðir.
Miðflokkurinn birti í dag níu tillögur sínar að aðkallandi efnahagsaðgerðum, sem auglýstar voru í Morgunblaðinu og víðar. Spurður hvort hann telji tillögur ríkisstjórnarinnar hafa komið til móts við þær hugmyndir segir Sigmundur svo ekki vera.
„Ég átti von á róttækari aðgerðum í ætt við það sem stjórnvöld í öðrum löndum hafa kynnt,“ segir Sigmundur og bætir við að margar aðgerðirnar sem voru kynntar séu í raun ekki framlög ríkisins heldur hugsanleg lán frá bönkum, frestun á greiðslum og heimild til notkunar séreignasparnaðar. „Maður vill ekki auka á svartsýni fólks, en útlitið til skamms tíma er þó hrikalega svart.“
Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í dag er 20 milljarða króna fjárfestingarátak, þar sem hið opinbera leggur aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir og upplýsingatækni. Að sögn Sigmundar er hér um að ræða endurtekið efni, fjárfestingar sem þegar var búið að boða. „Við höfðum þegar talað um það [áður en veiran kom upp] að það þyrfti fjárfestingarátak upp á 50 milljarða á ári næstu þrjú árin til að bregðast við þróuninni sem komin var upp þá. Þarna eru 20 milljarðar.“
Ein þeirra aðgerða sem þingflokkur Miðflokksins hefur lagt til er að ríkið veiti beinan fjárhagslegan stuðning til fyrirtækja í hlutfalli við þann fjölda starfsmanna sem halda vinnu. Aðspurður segir Sigmundur að sú aðgerð verði vissulega mjög kostnaðarsöm. „Aðgerðir stjórnvalda munu vafalítið þurfa að hlaupa á hundruðum milljarða. Við höfum sagt að það megi ekki bara horfa til kostnaðarins við aðgerðir heldur einnig kostnaðar við það að ráðast ekki í aðgerðir,“ segir Sigmundur.
Spurður út i tillögu um lækkun bankaskatts, sem ætlað er að auka „útlánasvigrúm“ bankanna, segist Sigmundur skilja hugsunina bak við þær aðgerðir. „Það sem þarf að passa er að bankarnir fari ekki að taka yfir lífvænleg fyrirtæki fyrir lítið og selja síðar þegar ástandið er gengið yfir,“ segir hann og bendir á eftirmál hrunsins 2008 sem víti til varnaðar. Setja þurfi bönkunum skilyrði til að koma í veg fyrir þetta.
Sigmundur telur ekki ósennilegt að tillögur stjórnvalda muni taka breytingum í meðferð þingsins, og vísar til frumvarps um greiðslu launa fyrir fólk í skertu starfshlutfalli sem tók miklum breytingum í velferðarnefnd.
Spurður út í samstarf stjórnvalda og stjórnarandstöðu segir Sigmundur að stjórnvöld hafi ekki haldið minnihlutanum mjög upplýstum um undirbúning aðgerða. Hins vegar sé það skiljanlegt. „Það er ekki hægt að gera kröfu um það á þessum tímum. Stjórnvöld þurfa að stjórna.“ Aftur á móti sé mikilvægt að almenningur, fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafi tækifæri til að spyrja spurninga og þykir honum ekki mikið svigrúm hafa gefist til þess.