Smitaðist líklega af hurðarhúni

Maðurinn smitaðist líklega með því að taka í sama hurðarhún …
Maðurinn smitaðist líklega með því að taka í sama hurðarhún og hjón sem voru að koma af skíðum á Ítalíu og reyndust smituð. Ljósmynd/Colourbox

Blaðamaður sló á þráðinn til manns sem smitaðist í byrjun mars og er nú í einangrun ásamt kærustu sinni. Þau eru á batavegi en eru bæði búin að vera mjög veik. Maðurinn vill ekki láta nafns síns getið en nefnist Jónas í þessu viðtali. Jónas byrjar frásögnina á því hvernig hann nældi sér í kórónuveiruna skæðu.

„Ég virðist hafa náð í smit með því að hitta nágranna mína. Þau voru að koma frá Selva laugardaginn 29. febrúar og fóru í sjálfskipaða sóttkví því þá var enn ekki búið að gefa út nein boð um að senda þau í sóttkví. Á sunnudeginum 1. mars renndi ég til þeirra og færði þeim mat sem ég átti. Ég passaði mig á því að koma ekki nálægt þeim, tók ekki utan um þau eða neitt. Ég fór inn með matinn og lagði hann á eldhúsborðið og settist út í horn í tveggja, þriggja metra fjarlægð frá þeim. Ég fékk einn kaffibolla og kannski smitaðist ég af bollanum. En mögulega smitaðist ég af húninum á útidyrahurðinni. Þetta eru einu smitleiðirnar sem ég kem auga á. Ég stoppaði þarna í kannski tíu mínútur,“ segir Jónas, sem er á sextugsaldri.

Einkenni tveimur dögum síðar

„Hjónin sem höfðu verið í Selva fóru svo í próf á mánudeginum og á miðvikudeginum var staðfest smit hjá þeim og þau sett í einangrun. Strax á þriðjudegi fann ég einkenni. Ég fór að labba á Esjuna á þriðjudagseftirmeðdegi og ég komst bara upp í miðjar hlíðar því ég var svo ofboðslega móður og þreyttur, sem er ekki eðlilegt hjá mér því ég er vanur göngumaður og fer oft þarna upp. Ég sneri við og um kvöldið var ég kominn með bullandi hita,“ segir hann. 

„Kærastan mín fór með mér á Esjuna og við fundum bæði sömu einkennin á sama tíma. Við erum nokkurn veginn búin að haldast í hendur í gegnum þetta nema einkennin hafa verið aðeins mismunandi. Hún fékk ekki eins mikinn hita og ég en ég var með hita í tólf daga.“

Hljóðar undan verkjum

Hvað varstu með mikinn hita?

„Ég var mest með fjörutíu stiga hita. Ég var með þessi týpísku flensueinkenni; beinverki, höfuðverk og mikinn hósta. Í fjórar nætur svitnaði ég út úr rúminu. Við þurftum að skipta á rúminu; það var allt rennandi blautt. Kærastan mín fékk aðeins vægari hita, en hún er með viðkvæmari lungu og hefur verið með ofboðslega slæma vöðvaverki. Hún hljóðar undan verkjum. Hún hefur verið virkilega kvalin,“ segir Jónas, sem segir að kærastan sé enn með hita af og til.

Lengra viðtal við manninn er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert