„Og nú kveð ég Ísland, heimili mitt síðustu tvö og hálft ár. Því miður þarf ég að fara í flýti áður en allar flugleiðir stöðvast,“ skrifar Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, á Facebook í morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur hvatt Íslendinga erlendis sem vilja snúa heim til að gera það sem fyrst. Hætta er á að flugsamgöngur til landsins lokist um næstu mánaðamót.
Mann þakkar fyrir sig og segir Ísland fallegt land og fólkið indælt. Hér hafi hann eignast dóttur og marga góða vini.
Hann segist enn fremur snúa aftur til Íslands í framtíðinni, starfs síns vegna.