20 af 24 manna skíðahópi smitaður

Jarðböðin við Mývatn.
Jarðböðin við Mývatn.
Tuttugu af 24 sem fóru í gönguskíðaferð norður í Mývatnssveit hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Þetta kemur fram í færslu Andreu Sigurðardóttur á Facebook en hún er ein þeirra sem tóku þátt í ferðinni. Ákveðið hefur verið að loka skólum í Mývatnssveit meðal annars vegna þessa. Ferðin hófst fimmtudaginn 12. mars og kom hópurinn heim á mánudag, samkvæmt færslu hjá einni af þeim sem voru í ferðinni og hefur greinst með kórónuveiruna. 
„Þegar við lögðum land undir fót var ekki búið að kynna samkomubann. Leiðbeiningarnar voru að forðast snertingar, þvo hendur vel og reglulega og spritta. Útbreiðsla í samfélaginu var þá ekki mikil, þeir sem voru að greinast voru fyrst og fremst að koma frá áhættusvæðum og svo þeir sem þá höfðu umgengist.
Allt var enn opið, skólahald með óbreyttu sniði, íþróttaæfingar og samkomur ýmiss konar. Á þessum tímapunkti sáum við ekki sérstaka áhættu í því að fara í um 20 manna hóp að ganga um á gönguskíðum. Ferðast á einkabílum, og gist í sérherbergjum. Smitdreifing í samfélaginu, tilmæli og leiðbeiningar gáfu ekki tilefni til annars. En eins og alltaf, það er auðvelt að vera vitur eftir á.
Við vorum meðvituð um smitvarnir. Þegar við hittumst heilsuðumst við með brosi. Við þvoðum hendur og nýttum okkur sprittbrúsa á hótelinu fyrir og eftir mat. Við reyndum að gæta fjarlægðar, en við, líkt og aðrir, vorum og erum að aðlagast nýjum leikreglum. Við erum mannleg og stundum máttum við gera betur.
Í jarðböðunum upplifðum við undurfagurt sólsetur og hlupum þá til og stilltum okkur upp á mynd í nokkrar sekúndur, augnabliks hugsunarleysi í hita leiksins. Það var ekki dæmigert fyrir hegðun okkar í ferðinni þótt einhverjir vilji mála það upp þannig. Allt tal um snjóhúsaknús er tóm þvæla.
Hvernig gat þetta gerst?
Svo útbreitt smit varð ekki við nokkurra sekúndna myndatöku. Það varð varla þegar við vorum á skíðum með nóg bil á milli og fólk með klæði fyrir vitum sér. Mín kenning, sem aðrir mér fróðari hafa tekið undir, er morgunverðarhlaðborð á hótelinu. Við inngang sprittar fólk sig og aftur á útleið. Hins vegar vorum við þar, innan um aðra ferðamenn og gesti hótelsins, notuðum sömu áhöld í hlaðborðinu og skárum af sama brauðinu. Maður hugsaði ekki út í þetta þá, en eftir á að hyggja var þetta ávísun á útbreiðslu smits ef einhver hótelgestur hefur verið sýktur.
Sama hvað maður þvoði hendur, sprittaði og gætti að fjarlægð, þá voru það þessir litlu hlutir sem maður kveikir ekki endilega á en eru svo augljósir þegar litið er til baka. Þessir litlu sameiginlegu snertifletir. Þessir litlu sameiginlegu snertifletir eru allt í kringum okkur. Við erum öll að aðlagast nýjum leikreglum og við og aðrir munum misstíga okkur, því getum við ekki breytt. Við getum þó valið að læra af reynslunni.
Smithætturnar leynast víða
Við getum öll lent í óbeinu snertismiti. Þau hafa ekkert frekar með útivistarferð eða skíði að gera eins og margir vilja halda fram. Á sumum vinnustöðum eru enn mötuneyti þar sem áhöld eru samnýtt, þeim fer þó fjölgandi sem breyta um verklag. Ég hvet alla til þess að endurskoða slíkt fyrirkomulag.
Í matvöruverslunum eru fjölmargir snertifletir óbeinna snertismita og full ástæða til að gæta fyllstu varúðar þar. Í líkamsræktarstöðvum, sama hvað lóð og tæki eru sótthreinsuð við hverja snertingu, er fólk að svitna, pústa, hósta og hnerra og dropasmitin ferðast í andrúmsloftinu í einhvern tíma.
Allir, sem á annað borð fara út á meðal fólks enn þá, eru berskjaldaðir fyrir smiti. Þegar það kemur upp, þá ferðast það hratt. Ég vissi að þessi veira smitaðist hraðar en aðrar veirur, en ekki hefði mig órað fyrir að í smitvarnameðvituðum hópi gætu 20 af 24 sýkst. Það þarf svo lítið til. Flestum sem frásögnina heyra verður brugðið, flestum þó af því að hún er þörf áminning um hversu ótrúlega smitandi óværan er. Fólk veit að hún er smitandi, en því blöskrar samt. 20 af 24.
Miðlum reynslusögum og lærum af þeim
Einhverjir netverjar segja að ég ætti heldur að fara huldu höfði og skammast mín í stað þess að tjá mig um málið. Því er ég ósammála. Enginn er fullkominn, við erum öll berskjölduð og við munum öll misstíga okkur. Slembilukka mun ráða því hvort veiran sé til staðar þegar það gerist. En ég trúi því að því meðvitaðri sem við erum, því varlegar sem við förum og því meiri lærdóm sem við drögum af reynslu hvert annars, því betri verðum við í þessu og getum þannig dregið úr útbreiðslu.
Ég mun því ganga með höfuð hátt og miðla minni reynslu með öllum sem vilja hlusta. Ég vona að okkar reynsla verði öðrum víti til varnaðar. Ég vona að hún auki meðvitund um hve lúmsk óværan er og ef einu einasta smiti verður varnað með minni frásögn, þá er tilganginum náð. Skiptir þá engu að einhverjum finnist ég sjálfselskur kjáni.
Smitskömm gerir illt verra
Neikvæðar athugasemdir og sleggjudómar fólks fá ekki á mig, en ég hef áhyggjur af því að slík orðræða verði þess valdandi að annað fólk sem smitast miðli síður sinni reynslu, af ótta við að verða fyrir opinberri skömm, og að við sem samfélag fáum þ.a.l. ekki tækifæri til að læra af reynslu þeirra sem fyrir smiti verða.
Ég vona að við sem samfélag getum staðið saman og stutt hvert annað, sérstaklega okkar viðkvæmustu hópa. Gerum okkar besta til að hefta útbreiðslu, forðumst sleggjudóma gagnvart náunganum, leiðbeinum heldur hvert öðru og drögum lærdóm af því sem betur má fara,“ skrifar Andrea í opinni færslu á Facebook.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert