Ragnhildur Þrastardóttir
Mikið samstarf er á milli einkarekna heilbrigðiskerfisins og þess opinbera vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem leiðir til sjúkdómsins COVID-19, að sögn Ölmu D. Möller landlæknis. Hún segir að allir þurfi að leggja hönd á plóg og bæði einkareikna kerfið og hið opinbera séu tilbúin til þess.
„Það eru allir boðnir og búnir að vinna saman,“ segir Alma í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag. „Sem dæmi um samvinnu og samhug hefur fjöldi svæfinga- og gjörgæslulækna sem vinna á einkareknum stöðvum skráð sig til leiks til að sinna gjörgæslusjúklingum á Landspítala ef á þarf að halda.“
Verið er að skoða húsnæði sem gæti tekið við sjúklingum ef til þess kemur að heilbrigðisstofnanir ráði ekki við fjölda sjúklinga. Alma segir möguleika á því að einkarekna kerfið verði beðið um að framkvæma brýnar skurðaðgerðir sé það opinbera heilbrigðiskerfinu um megn vegna fjölda sjúklinga. Til þessa hefur ekki verið þörf á því en nú hefur öllum valkvæðum skurðaðgerðum verið hætt, bæði í einkarekna og opinbera heilbrigðiskerfinu.
„Við erum búin að vera í miklu samstarfi um að efla fjarheilbrigðisþjónustu og síðan hefur komið boð frá sérfræðilæknum um að til dæmis hjálpa til með göngudeildarþjónustu,“ segir Alma. „Við erum ekki komin þangað núna en auðvitað getur komið til þess að við þurfum að fá einhverjar af einkareknu skurðstofunum til að hjálpa okkur með bráðar aðgerðir. Það er mikið samtal í gangi við mjög marga aðila.“