Álagið eins og fyrir páskalokun eða jólafrí

Ljóst er að margir ætla að leggjast í lestur í …
Ljóst er að margir ætla að leggjast í lestur í samkomubanninu. mbl.is/Styrmir Kári

Á miðnætti í gær var öllum söfnum landsins lokað, þar á meðal bókasöfnum, eftir að samkomubann var hert. En söfnin verða lokuð fram yfir páska. Margir bókaormar drifu sig því af stað í gær til að verða sér úti um bækur og og önnur safngögn fyrir lokun, en óvenjumikið var að gera á bókasöfnum borgarinnar.

„Það var búið að vera rólegt um helgina hjá okkur og í síðustu viku. Það var svolítið öðruvísi nýting á safninu hjá okkur eftir að sérfræðisöfnin og háskólabókasafnið lokaði. Þá vorum við að sjá nemendur koma hingað til að læra en svo róaðist það aðeins. En í gær þá áttaði fólk sig á því að við værum að fara að loka og það var töluvert mikið að gera og fólk að taka mikið af safngögnum að láni,“ segir Barbara Guðnadóttir, safnstjóri Grófarsafns. Margir spurðu hve mikið af gögnum mætti taka og nýttu sér það til fulls. 

Barbara segir fólk hafa verið að fá allskonar gögn að láni, en sérstaklega mikið af barnabókum. Margir hafi líka hringt inn og pantað Syrpur og Andrésblöð til að sækja sem er eitthvað sem gerist oft rétt fyrir frí. „Það var svolítið þannig álag, svolítið eins og daginn fyrir páskalokun eða rétt fyrir jólin. Það var þannig stemning í húsinu.“

Þrátt fyrir að breiddin í lánsgögnunum hafi verið mikil var þó óvenjulegt hve margar fræðibækur voru lánaðar. „Það eru greinilega margir sem eru að vinna að verkefnum, ritgerðum og fræðiefni, þannig það sem var óvenjulegt og ólíkt því sem gerist rétt fyrir frí er að það var mikið af bókum sem fara ekki mikið í útlán því fólk er að nálgast þau á háskóla- og framhaldsskólabókasöfnunum.“ Hún segir marga hafa verið stressaða yfir því að fá gögn svo hægt væri að vinna við verkefnin á meðan allt er lokað.

Hrósar safngestum fyrir að virða fjarlægðarmörk 

Barbara segir safngesti ekki hafa verið nógu duglega við að virða fjarlægðarmörk á milli fólks fyrst um sinn eftir að samkomubann var sett á fyrir rúmri viku, en það hafi breyst þegar líða fór á vikuna. Í gær hafi safngestir svo verið til fyrirmyndar hvað þetta varðar. „Það er eins og fólk hafi áttað sig og ég verð að hrósa gestum fyrir að virða fjarlægðarmörk við afgreiðsluborðið og sín á milli inni á safninu. Við höfum verið með spritt út um allt og latexhanska og fólk hefur verið duglegt við að nýta sér það. Það er kannski helst unga fólkið sem hefur átt erfitt með að virða fjarlægðarmörkin þegar það er að læra saman, en þetta er búið að ganga ótrúlega vel.“

En þrátt fyrir að safninu hafi nú verið lokað fyrir safngesti í bili þá mun starfsfólkið ekki slá slöku við næstu vikur. „Nú er starfsfólkið svolítið að pústa eftir þetta og taka til,“ segir Barbara og vísar til óvenjumikils álags í gær. En svo verða hendur látnar standa fram úr ermum.

„Það verða allir í vinnu og það er nóg af verkefnum. Það er nefnilega svo ótrúlegt að það er heilmargt sem þarf að gera þó gestirnir komi ekki. sérstaklega hérna niðri á Grófarsafni þá erum við búin að vera að undirbúa ákveðnar breytingar inni á safninu og núna munum við einhenda okkur í það. Þannig þetta verði allt tilbúið og flott þegar við opnum aftur.“

Barbara segir fólk töluvert hafa verið að hringja í safnið í dag en tekið er á móti símtölum frá klukkan tíu til fjögur á virkum dögum. Þá bendir hún á að lánskerfi bókasafna hafi sjálfkrafa framlengt í öllum útlánum fram yfir samkomubann þannig fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að gera það sjálft eða lenda í vanskilum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert