Sýslumaðurinn fór aftast í röðina

Tveir metrar á milli skal vera viðmiðið.
Tveir metrar á milli skal vera viðmiðið. Ljósmynd/Aðsend

Reglur um fjarlægð milli fólks og hámarksfjölda á lokuðu svæði ollu því að röð þeirra sem erindi áttu á skrifstofu sýslumanns í Kópavogi náði langt út úr dyrum fyrr í dag.

„Við höfum skipulagt fyrstu hæðina sem eitt svæði og því mega aðeins tuttugu manns samtals vera á hæðinni, starfsmenn þar með taldir,“ segir Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirkomulagið hafi gengið ljómandi vel.

„Það er starfsmaður sem situr við borð og tekur á móti fólki og beinir því í rétta átt, til að flýta fyrir afgreiðslu. Þegar einn gengur út úr byggingunni þá getur næsti komið inn. Stundum kemur fólk tvennt saman að ástæðulausu og þá biðjum við annað þeirra að fara út, því annars er viðkomandi að taka pláss sem annars nýttist öðrum,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Leiðinlegt að komast ekki að

Sjálfur fór hann út fyrir þegar klukkuna vantaði um korter í þrjú. Fór hann þá aftast í röðina og beið þar til að varna því að fólk bættist í röðina og fengi svo ekki afgreiðslu þegar búið væri að loka klukkan þrjú.

„Það væri leiðinlegt að bíða í röð lengi og komast svo ekki að,“ segir hann.

Margt í starfsemi sýslumanns hefur þurft að endurskipuleggja vegna kórónufaraldursins. „Við erum búin að skipta húsinu í svæði fyrir svolitlu síðan, til að lágmarka líkurnar á því að við þurfum að loka heilu sviði. Þetta hefur allt blessast ágætlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert