Hagvöxtur gæti orðið neikvæður um nær 5%

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. mbl.is/Golli

Hagvöxtur á Íslandi gæti orðið neikvæður um nær 5% á þessu ári. Áður hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir að á árinu yrði tæplega 1% hagvöxtur. Búist er við að erlendum ferðamönnum næstu mánuði fækki um yfir 90% frá í fyrra.

Þetta kom fram í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á kynningarfundi í bankanum í morgun.

Þórarinn sagði það ljóst að verulega hefði dregið úr spurn eftir vöru og þjónustu. Mikil óvissa væri uppi um stöðu og horfur í efnahagsmálum í fordæmalausum aðstæðum og því erfitt að gera spár.

Bankinn hefði þó unnið að gerð sviðsmynda til að varpa ljósi á þau áhrif sem þróun mála kann að hafa í för með sér. Kynnti Þórarinn tvær þær helstu sviðsmyndir sem stuðst er við innan bankans um þessar mundir, og tók um leið fram að ekki væri um að ræða spá. Jafnframt væri ekki tekið mið af aðgerðum stjórnvalda, sem milda ættu höggið.

37-55% fækkun ferðamanna

„Stóri þátturinn í þessum sviðsmyndum er ferðaþjónustan,“ sagði Þórarinn.

„Í mildari myndinni bjargast eitthvað af sumrinu en í þeirri dekkri varir ástandið lengur og batinn verður hægari.“

Mildari sviðsmynd bankans sýnir þannig 37% fækkun ferðamanna á árinu og 14% samdrátt heildarútflutnings milli ára. Sú dekkri sýnir hins vegar 55% fækkun ferðamanna og 21% samdrátt heildarútflutnings.

Þórarinn benti þó á að gera mætti ráð fyrir svipaðri þróun í þjónustuinnflutningi, þ.e. að ferðalög Íslendinga dragist saman með áþekkum hætti.

Hægja myndi á fjölgun fólks á vinnualdri.
Hægja myndi á fjölgun fólks á vinnualdri. Skjáskot/Seðlabanki Íslands

Atvinnuleysi geti farið upp í 7 prósent

Hvað varðar áhrif faraldursins á vinnumarkað var vísað til sérstakra áhrifa tímabundinna lokana fyrirtækja á atvinnuleysi og meðalvinnutíma.

Hægja myndi á fjölgun fólks á vinnualdri, meðal annars vegna minni innflutnings á erlendu vinnuafli. Atvinnuþátttaka myndi þá minnka vegna vinnutaps sem rekja mætti til veikinda og fjarveru sökum sóttkvíar, skólalokana og skertrar umönnunar.

Sérstök áhrif yrðu á einkaneyslu vegna sóttkvíar, sjálfseinangrunar og samkomubanns. Fyrirséð væru vandamál með afhendingu og dreifingu sjávarafurða og minni eftirspurn vegna lokana veitingastaða erlendis.

Grunnspá Seðlabankans fyrir atvinnuleysi á árinu var 4,2% en samkvæmt sviðsmyndunum tveimur sem kynntar voru gæti atvinnuleysið farið upp í 5,7% og allt upp í 7%.

Fundurinn var haldinn í Seðlabankanum.
Fundurinn var haldinn í Seðlabankanum. Skjáskot/Seðlabanki Íslands

Verðbólga hálfu prósenti minni

Þórarinnn sagði þá að veruleg breyting væri á horfum í einkaneyslu en miðað við þessar tvær sviðsmyndir væri líklegt að einkaneysla dragist saman um 1,1-3,8% frá síðasta ári.

Benti hann á að spáð hefði verið 0,8% hagvexti á árinu. Sviðsmyndirnar sýni núna 2,4-4,8% samdrátt. Verðbólga yrði um hálfu prósenti minni en gert var ráð fyrir.

Að lokum tók hann fram að þjóðarbúskapurinn muni ná sér aftur á strik þegar þessi óværa væri gengin yfir.

„Allar þessar sviðsmyndir gera ráð fyrir að hagvöxtur muni aftur ná sér á strik á næsta ári.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert