Íbúar London lokaðir inni

Útgöngubann er nú í gildi í Bretlandi þar sem stjórnvöld reyna að halda aftur af útbreiðslu kórónuveirunnar. Fólk má búast við sektum frá yfirvöldum virði það ekki bannið sem Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti um á mánudag.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í London, segir bannið vera mikil viðbrigði fyrir almenning.

Það var fámennt á Westminster-brúnni í London í dag. Útgöngubann …
Það var fámennt á Westminster-brúnni í London í dag. Útgöngubann hefur verið sett á í Bretlandi en en alls er talið að um 1,7 milljarðar manna sé nú í útgöngubanni á heimsvísu. AFP

„Þetta eru auðvitað gífurleg viðbrigði fyrir samfélagið allt eins og annarsstaðar enda búið að setja miklar skorður við daglegu lífi fólks. En ég held að það sé skilningur meðal almennings á nauðsyn þessara ráðstafana. Mjög er brýnt fyrir fólki að virða 2ja metra fjarlægðarregluna, handþvott og fara ekki út að óþörfu. Einnig hefur komið fram sterk gagnrýni á þá sem hafa hamstrað. Í auknum mæli er farið að heyrast í starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni og aðstandendum fólks sem hefur veikst illa og jafnvel látist þar sem það biðlar til almennings að halda sig heima og virða tilmæli stjórnvalda. Ég get ekki sagt hvort fólk er almennt óttaslegið en hins vegar er farið að bera á vaxandi ugg vegna viðkvæmra samfélagshópa, ekki síst aldraðra og þá sem eru veikir fyrir vegna annara veikinda,“ segir hann í svari við fyrirspurn mbl.is. 

Bretar þurfa að halda sig heima þessa dagana en enn …
Bretar þurfa að halda sig heima þessa dagana en enn sem komið er er leyfilegt að fara út að hlaupa. AFP

Tónlistarkonan Heiðrún Anna Björnsdóttir hefur verið búsett í London um árabil og hún tekur undir að fólk sé farið að finna verulega fyrir alvöru málsins. 

„Mér finnst fólk vera að taka þessu mjög alvarlega núna, alla vega í kringum mig. Þetta er tíundi dagurinn sem ég hef varla farið út. Einn 20 mínútna göngutúr með krakkana og einn hjólatúr en núna er bara farið út í garð að leika og við hittum enga,“ segir hún og bætir því við að svigrúm fólks sé að minnka enn frekar. „Allt er að loka, maður gat aðeins pantað mat heim en sumir veitingastaðir eru hættir að gera það. Núna má ekki fara út nema að það sé alveg nauðsynlegt og ekki fleiri en tveir út sömu fjölskyldu.“

Mynd sem Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Bretlandi, tók út …
Mynd sem Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Bretlandi, tók út um gluggann á heimili sínu af götunni sem hann býr við. Líkt og hjá stórum hluta jarðarbúa er þar lítið um að vera. Ljósmynd/Aðsend

Stefán segir mikið starf hafa verið unnið að undanförnu við að aðstoða Íslendinga í Bretlandi en einnig víðar.

„Við höfum unnið mjög náið með borgaraþjónustunni sem er á vaktinni allan sólahringinn við að aðstoða Íslendinga að komast til Íslands víða að úr heiminum. Þrátt fyrir gífurlegt álag á borgaraþjónustunni hefur þetta gengið ótrúlega vel og verið skilvirkt samstarf. Það hafa í sjálfu sér ekki komið upp stór vandamál enda eru allir flugvellirnir við London opnir sem og flugvallarhótel, almenningssamgöngur hafa einnig verið virkar þótt dregið hafi úr tíðni og stoppistöðum hafi verið fækkað. Einnig eru leigubílar akandi. Reyndar hefur Íslendingum sem eru að koma langt að gjarnan verið beint til London á leið sinni heim enda einna besta og greiðasta leiðin að fara hér í gegn. Við höfum hins vegar lítið þurft að aðstoða Íslendinga sem búa hér í Bretlandi við að komast heim þar sem hingað til a.m.k. hefur það verið lítið vandamál að komast héðan með flugi.“ 

Sífellt fleiri þekktir einstaklingar hafa tilkynnt um smit og fyrr í dag var sagt frá því að Karl Bretaprins hefði smitast af veirunni.   




Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Bretlandi.
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Bretlandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert