Pinnarnir frá Össuri virka ekki

Starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar í hlífðarbúningi.
Starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar í hlífðarbúningi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýnatökupinnarnir sem Íslensk erfðagreining fékk frá Össuri virka ekki. Þetta staðfestir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar.

„Þetta eru vonbrigði en nú eru vonir bundnar við að aðrar sendingar komi sem fyrst,“ segir hún en veit ekki hvenær það getur orðið . „Við krossum fingur um að það gæti orðið mjög fljótlega.“

Íslensk erfðagrein­ing hafði sam­band við Össur til að at­huga hvort fyr­ir­tækið gæti búið til sýna­tökup­inna en skort­ur er á slík­um pinn­um vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Alls voru pinnarnir um 20 þúsund talsins. 

Uppfært kl. 11.38:

Þóra Kristín bendir á að sýnatökupinnarnir séu ekki framleiddir af Össuri, heldur rekstrarvara sem var til á lager og notuð við samsetningu í framleiðsludeild.

„Fyrirtækið bauðst til að láta hana í té í þessum tilgangi ef það væri hægt að nota hana. Við nánari athugun reyndust pinnarnir hins vegar ekki nothæfir. Rétt er að taka fram að pinnarnir sem eru í notkun eru ekki þessir pinnar heldur aðrir sýnatökupinnar sem eru til takmarkaðar birgðir af. Þetta eru vonbrigði en vonir eru bundnar við sendingar frá Kína sem eru væntanlegar næstu daga,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert