Spá því að rúmlega 1.500 smitist

Búist er við því að á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir landið muni rúmlega 1.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá.

Þetta kemur fram í uppfærðu spálíkani sem unnið hef­ur verið af vís­inda­mönn­um frá Há­skóla Íslands, embætti land­lækn­is og Land­spít­ala.

Þar segir að spálíkanið sé unnið með gögnum til og með 24. mars og dagana þar á undan hafi færri smit greinst. Síðastliðinn sólarhring greindust hins vegar 89 með veiruna.

Spáin hefur breyst frá 22. mars en þá var gert ráð fyrir því að 2.500 til 6.000 myndu smitast.

Helstu niður­stöður spálík­ans­ins með gögn­um til og með 24. mars eru eft­ir­far­andi:

  • Gert er ráð fyrir því að á meðan faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 1500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2.300 manns skv. svartsýnustu spá.

  • Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti náð 1.600 manns skv. svartsýnustu spá.

  • Gert er ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 100 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð hátt í 160 manns skv. svartsýnustu spá.

  • Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að tæplega 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnasta spá er 80 einstaklingar.

  • Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 13 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnasta spá er 23 einstaklingar.

  • Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 5 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka