„Svigrúm til að prenta peninga“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvörðun Seðlabankans um að kaupa ríkisskuldabréf var tekin án samráðs við fjármálaráðuneytið, enda er bankinn sjálfstæð stofnun. Bréfin verða keypt fyrir nýja peninga og gengur bankinn ekki á forðann sinn.

Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi bankans í morgun.

Benti hann á að um væri að ræða svokallaða magnbundna íhlutun (e. quantitative easing), sem snúist um að seðlabankar kaupi ríkisskuldabréf á opnum markaði. Er þetta í fyrsta sinn sem bankinn nýtir sér þetta stýringartól og mörg atriði á eftir að útfæra að sögn Ásgeirs.

„Þó það sé eilítið vandamál að beita magnbundinni íhlutun í litlu, opnu kerfi, þá teljum við samt að miðað við núverandi aðstæður sé alveg svigrúm til þess að í rauninni prenta peninga. Sem sagt að kaupa skuldabréf með beinum hætti.“

Stýritæki til frambúðar

Lögum samkvæmt tók peningastefnunefnd bankans ákvörðunina, á sunnudag, og nemur heimild bankans til kaupanna 150 milljörðum króna.

Ásgeir benti á að upphæðin næmi um 5% af landsframleiðslu og væru kaupin þannig mun minni að sniðum en þær sem aðrir seðlabankar hafa ráðist í. Eftir eigi að útfæra kaupin nánar, meðal annars í samvinnu við fjármálaráðuneytið, en fyrirmyndir mætti finna mun víða.

Að mati Ásgeirs er um að ræða stýritæki sem bankinn er kominn með til frambúðar, til að hafa áhrif á langtímaávöxtunarkröfu skuldabréfa. Seðlabankinn hafi þegar tól til að stýra vöxtum til skemmri tíma en þegar skuldabréf væru keypt með þessum hætti væri bankinn að reyna að áhrif á vexti til lengri tíma.

Fullyrti hann að ríkissjóður muni þurfa fjármagn til að bregðast við kórónufaraldrinum og fyrirsjáanleg sé meiri útgáfa ríkisskuldabréfa. Þessi kaup væru ætluð til þess að tryggja framgang peningastefnunnar á markaði og þar með tryggja að heimili og fyrirtæki geti notið lágra langtímavaxta.

Sá tími kunni einnig að koma að bankinn kunni að vilja hækka langtímakröfurnar, til að mynda ef hann hefði áhyggjur af húsnæðisverði.

Ríkissjóður með góða lausafjárstöðu

Seðlabankastjórinn fór í stuttu máli yfir þær hættur sem gætu fylgt því að beita þessu tæki. Bankinn gæti aukið peningamagn í umferð og aukið hættu á meiri verðbólgu. En eins og staðan væri núna sagðist hann ekki telja þá hættu fyrir hendi.

Kaupin myndu auðvelda ríkissjóði verulega að fjármagna þau útgjöld sem nú lægju fyrir.

„Ríkissjóður er með góða lausafjárstöðu en þetta gerir það að verkum að beiting ríkisfjármálastefnunnar verður auðveldari,“ bætti Ásgeir við.

Bankinn hefði gripið til margvíslegra aðgerða á síðustu vikum og að hann líti á það sem svo að hann sé búinn að búa í haginn til að efnahagurinn geti tekið á móti þessu áfalli. Bankinn hefði núna ekki gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn í um eina og hálfa viku. Sagðist hann vona að rykið sé aðeins farið að setjast.

„Þetta er ekki okkar síðasta orð hvað varðar aðgerðir til að verjast COVID-19 veirunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert