Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru um nauðgun, auk þess sem einkaréttarkröfu var vísað frá dómi. Maðurinn var ákærður af héraðssaksóknara fyrir að hafa árið 2018 á heimili konu í Reykjavík haft samræði og önnur kynferðismök við hana gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi.
Hann var m.a. sakaður um að hafa slegið hana ítrekið í andlitið, bitið hana, tekið hana ítrekað kverkataki, rifið í hár hennar og haldið höndum hennar föstum. Fram kemur í ákærunni að hann hafi ekki látið af háttseminni þrátt fyrir að konan segði honum ítrekað að hún vildi þetta ekki og berði í hendur hans til að losa sig.
Málið var kært árið 2018. Konan sagði þau hafa farið heim til hennar eftir að hafa verið að skemmta sér í miðbænum ásamt fleira fólki. Þau hafi byrjað að stunda kynmök en ákærði hafi fljótlega orðið ofbeldisfullur gagnvart henni.
Í yfirheyrslu neitaði maðurinn sök. Hann kannaðist við að hafa farið heim með konunni og átt við hana kynmök. Þau hafi verið í fleiri en einni stellingu og konan tekið virkan þátt.
„Framburður brotaþola var trúverðugur og ítarlegri en framburður ákærða hvað lýsingu á kynmökunum varðaði. Dómurinn metur framburð ákærða ekki ótrúverðugan en þó ber hann þess merki að ölvunarástand hans umrætt sinn hafi skert minni hans nokkuð,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Fram kemur jafnframt að ekki hafi komið fram lögfull sönnun þess að maðurinn hafi haft ásetning til nauðgunar og var hann þvi sýknaður í málinu.