Veiran tekur sér ekki páskafrí

Frá vinstri: Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason, Alma D. Möller og …
Frá vinstri: Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason, Alma D. Möller og Vigfús Bjarni Albertsson. Ljósmynd/Lögreglan

„Það eina sem er öruggt með páskafríið er að veiran mun ekki taka sér frí,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, á blaðamannafundi almannavarna, spurður út í áframhaldandi samkomubann.

Hann sagði að fólk ætti að fara að huga að því að halda páskana heima og nefndi að þeir sem fara í sumarbústað og eru þar í sóttkví eigi ekki að haga sér neitt öðruvísi þar en heima hjá sér.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði að þau lönd sem eru að loka öllu hjá sér þessa dagana hafi flest gert gert mjög lítið framan af til að sporna við veirunni. „Við höfum viljað fara mildari leið og byrja strax í byrjun með tiltölulega harðar aðgerðir og vonast til að það myndi skila okkur. Ég held að það sé vænlegri leið,“ sagði hann.

Ljósmynd/Lögreglan

Margar aðgerðir skila mestu 

Spurður út í árangur af samkomubanni sagði Þórólfur það koma betur í ljós með nýju spálíkani. Hann sagði erfitt að sjá hvað hver einstök aðgerð skilar. Ljóst sé að það að gera eitthvað eitt skili nánast engu en það að gera mjög margt skili mestum árangri.

Hann sagði prófanir vegna veirunnar vera þrefalt fleiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. „Við erum að finna miklu meira af yngra fólki sem er vægt sýkt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert