Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfu Guðjóns Skarphéðinssonar, vegna áralangrar óréttmætrar frelsissviptingar hans í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmál, verður áfrýjað. Þetta staðfestir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns við mbl.is. Krafan hljóðaði upp á um 1,3 milljarða króna.
Ragnar segir í samtali við mbl.is ljóst að dómnum verði áfrýjað sérstaklega þar sem virt hafi verið að vettugi í dómnum það lykilatriði að einstaklingur væri saklaus uns sekt hans er sönnuð. Hann furðar sig á því að niðurstaða dómsins skuli ekki byggja á sýknudómi sem féll árið 2018 yfir Guðjóni heldur á dómum sem féllu árið 1977 og einnig árið 1980.
Guðjón var árið 1980 dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að hafa átt hlut í dauða Geirfinns Einarssonar sex árum áður. Hann var síðan sýknaður í Hæstarétti árið 2018 ásamt fjórum öðrum sakborningum.
Guðjón taldi sig eiga rétt á bótum vegna ólöglegra handtöku, ólöglegs gæsluvarðhalds og vegna rangra dóma. Þetta átti sér stað á tímabilinu 1976 til 1985. Í stuttu máli er niðurstaða dómsins sú að rétturinn var fyrndur.
Dómurinn féllst á málsástæður setts ríkislögmanns, Andra Árnasonar, þess efnis að samkvæmt þágildandi fyrningarlögum er fyrningarfrestur tíu ár frá því hinn bótaskyldi atburður átti sér stað. Sýknudómur Hæstaréttar frá árinu 2018 breyti engu um hvenær málsatvikin urðu.
Í dómnum er einnig tilgreind játning Guðjóns í dómi Hæstaréttar árið 1980. Sú játning er lögð til grundvallar á mati á sekt hans. Málsvörnin byggði meðal annars á lögum um eigin sök og afleiðingu eigin sakar á bótarétti.
„Stefnandi hafði ekki fallið frá framburði sínum heldur haldið fast við“ hann eins og segir í dómi Hæstaréttar. Með játningunni viðurkennir stefnandi að eiga sök á dauða Geirfinns. Eigin sök stefnanda sviptir hann því að geta átt rétt til skaðabóta.“ Segir í dómnum.