Sýna „Nýtt líf“ í bílabíói

Bíóið hefst klukkan 20 á mánudag.
Bíóið hefst klukkan 20 á mánudag.

„Við ákváðum að fara í þetta verkefni til að skapa eitthvað spennandi og skemmtilegt fyrir fólk á svæðinu til að stefna að, þar sem öll umræða snýst meira og minna um COVID-19 veiruna, aðstæður og afleiðingar,“ segir Sigthora Odins, sem stendur að bílabíói sem haldið verður á mánudag.

„Heimilislíf hefur raskast hjá flestum, íþróttastarf hefur lagst niður svo það er lítið um að vera fyrir yngri kynslóðina nema skóli eða fjarnám. Þetta er okkar tilraun til að hlúa að náunganum og skapa viðburð sem áhugasamir geta hlakkað til að upplifa,“ segir Sigthora, en bílabíóið verður klukkan 20 við reiðhöllina fyrir utan Borgarnes.

Í samvinnu við Exton og Þráin Bertelsson

Á dagskrá er kvikmyndin „Nýtt Líf“ — létt íslensk gamanmynd fyrir alla fjölskylduna, og verður bíóið opið öllum á meðan pláss leyfir.

Í tilkynningu er fólk beðið um að virða náungann og halda sig í sínum bílum á meðan á viðburði stendur og fara eftir þeim reglum og viðmiðum sem almennt eru settar af hálfu heilbrigðisráðuneytis og almannavarna.

Sigthora skipuleggur verkefnið ásamt félögum í Kvikmyndafjelagi Borgarfjarðar, þeim Eiríki Jónssyni, Daða Georgssyni og Orra Sveini Jónssyni. Verkefnið er styrkt af Sveitarfélaginu Borgarbyggð og unnið í samvinnu við hestamannafélagið Borgfirðing og stjórn reiðhallarinnar, Exton tækjaleigu og Þráin Bertelsson, leikstjóra Nýs lífs.

Vill Sigthora koma á framfæri þökkum til allra þessara aðila fyrir þeirra framlag til verkefnisins.

Gjaldfrjáls en hægt að styrkja Rauða krossinn

Sýningin verður gjaldfrjáls fyrir bíógesti svo allir geti notið, en hægt verður að styrkja við starf Vesturlandsdeildar Rauða krossins með frjálsum framlögum í reikning 0326-26-003679  kt. 620780-3679.

„Það geta allir tekið þátt í þessu samfélagslega verkefni með að styðja Rauða krossinn ef fólk er aflögufært, þannig verður þessi viðburður bolti sem heldur áfram að rúlla og það verður gaman að sjá hvaða spennandi verkefni koma til með að að spretta upp í framhaldinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert