Aðeins sex flugferðir áætlaðar alla helgina

Fyrir helgi var flestum flugferðum aflýst og það sama á …
Fyrir helgi var flestum flugferðum aflýst og það sama á við nú um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins eru sex flugferðir áætlaðar á Keflavíkurflugvelli alla helgina. Tvær þeirra eru í dag, þar af önnur með British Airways, en sú vél lenti í morgun, og fjórar á morgun.

Þegar flugáætlunin á vef Isavia er skoðuð sést að flugfélögin hafa aflýst flestum ferðum um helgina, en margar eru áfram á dagskrá strax á mánudaginn og út vikuna. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir skýringuna þá að flugfélögin eigi líklega eftir að uppfæra planið hjá sér og hvaða flug verði felld niður, en hann segist eiga von á að stærstur hluti flugferða eftir helgi verði einnig felldur niður.

Tómlegt hefur verið í Leifsstöð undanfarna daga vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. …
Tómlegt hefur verið í Leifsstöð undanfarna daga vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Flest flug hafa verið felld niður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í morgun kom ein vél frá Heathrow í London á vegum British Airways. Seinni partinn er svo von á vél Icelandair frá sama flugvelli, en þetta eru einu tvær vélarnar sem eru áætlaðar í dag.

Á morgun er svo á áætlun eitt flug frá Boston með Icelandair um morguninn og annað með British Airways frá Heathrow. Eftir hádegi er von á flugi Icelandair frá Heathrow og flugi SAS frá Ósló.

Tómlegir farþegasalir í flugstöðinni.
Tómlegir farþegasalir í flugstöðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef engin þessara ferða verður felld niður verður heildarfjöldi flugsæta til Keflavíkur yfir helgina um tvö þúsund. Ólíklegt er þó að vélarnar séu alveg fullar miðað við ástandið þessa dagana, en til samanburðar má sjá á farþegatölum Isavia að meðalfjöldi farþega í febrúar um völlinn var um 13.500 manns, eða 27 þúsund yfir heila helgi. Hafði farþegum þó fækkað um 23% frá sama tíma árið áður, þannig að ljóst er að farþegafjöldi um flugvöllinn verður aðeins örfá prósentustig af hefðbundinni umferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert