Almenningur ber mikið traust til stjórnvalda, heilbrigðisyfirvalda og fjölmiðla á veirutímum ef marka má þjóðarpúls Gallup. 45% aðspurðra segjast treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum „fullkomlega“ í baráttunni, 38% mjög vel og 12% vel. Einungis eitt prósent segist treysta heilbrigðisyfirvöldum frekar illa og 1% til viðbótar segist alls ekki treysta þeim.
Afar lítill munur er á trausti eftir kyni aldri, tekjum og menntun, en hlutfall þeirra sem treysta yfirvöldum vel er þó áberandi lægst meðal stuðningsmanna Miðflokksins (83%) og þeirra sem myndu skila auðu væri gengið til kosninga nú.
75% aðspurðra segjast treysta fjölmiðlaumfjöllun vel (ýmist fullkomlega, mjög vel eða vel) samanborið við 8% sem treysta henni illa. Sem fyrr eru það kjósendur Miðflokksins (60%) og þeir sem skila myndu auðu (59%) sem bera minnst traust.
Um 30% þjóðarinnar óttast mjög eða frekar mikið að smitast af COVID-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur, ef marka má niðurstöður þjóðarpúls Gallups. Álíka margir, 29% aðspurðra, óttast það lítið eða frekar lítið.
59% aðspurðra hafa miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum faraldursins á Ísland, samanborið við 13% sem gera það ekki. Fleiri hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum faraldursins, 70% þátttakenda, en aðeins 5% gera það ekki.
Landsmenn segjast hafa breytt lífi sínu á ýmsan hátt vegna faraldursins. Flestir sögðust þvo hendur oftar og betur (94%) og forðast handabönd (91%). Þá segjast 88% forðast faðmlög og kossa, 43% hafa breytt ferðaáætlunum og 31% vinna að heiman að hluta til eða öllu leyti.
Könnunin var framkvæmd dagana 20.-26. mars. Voru þátttakendur valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup. Um netkönnun er að ræða og voru þátttakendur 806.