Um 36% þeirra sem greindust með kórónuveirusmit síðasta sólarhringinn voru í sóttkví. Frá þessu greindi Alma Möller landlæknir á blaðamannafundi almannavarna fyrir skömmu. Er það mun lægra hlutfall en undanfarna daga, þegar um 60% nýgreindra hafa verið í kví.
Alls greindust 57 ný smit undanfarin sólarhing, 55 (af 359 sýnum) hjá veirufræðideild Landspítala og 2 (af 490 sýnum) hjá Íslenskri erfðagreiningu. 15.500 sýni hafa nú verið tekin, eða hjá um 4,3% þjóðarinnar.
Sagði Alma að rétt eins og í gær væri talið að faraldurinn væri í vexti, en þó ekki veldisvexti, hérlendis. Fjöldi smita fylgdi bestu spám, en fjöldi á gjörgæslu verstu og raunar rúmlega það.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, var meðal gesta fundarins. Sagði hann að starfsemi spítalans hefði verið umbylt á síðustu dögum, vel tekist til og starfsfólk ynni hratt og örugglega að því. „Við erum ekki olíuskip heldur spíttbátur.“
Páll sagði að leggja hafi þurft mörg önnur verkefni spítalans til hliðar, svo sem aðgerðir sem geta beðið. Þakkaði hann sjúklingum og aðstandendum skilninginn. Landspítalinn hefur þurft að takmarka heimsóknir gesta allverulega síðustu vikur, en síðast í dag var tilkynnt að sængurlegudeild spítalans, þar sem nýbakaðar mæður og börn þeirra dvelj, yrði nú ekki opin mökum. Þá beindi hann þeim tilmælum til aðstandenda, sem fá að heimsækja sjúklinga í undantekningartilfellum, að koma alls ekki finni þeir til einhverra einkenna.