Fóru fram af hengju

Frá aðgerðum björgunarsveita. Mynd úr safni.
Frá aðgerðum björgunarsveita. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Kona á miðjum aldri er talin alvarlega slösuð eftir að vélsleði hennar fór fram af hengju í grennd við Veiðivötn. Verður hún flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur auk eins annars. Að minnsta kosti þrír eru slasaðir en áverkar hinna tveggja munu vera minni. Verður sá þriðji fluttur með sjúkrabíl til Selfoss.

Aðgerðum björgunarsveita og sjúkraflutningamanna fer senn að ljúka, en sveitir á Suðurlandi og í uppsveitum Árnessýslu voru kallaðar út klukkan hálfþrjú og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í kjölfarið vegna slyssins.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að ferðafélagar konunnar hafi náð að flytja hana áleiðis til móts við viðbragðsaðila um klukkan fjögur. 

Jón Hermannsson hjá svæðisstjórn Landsbjargar á Suðurlandi segir í samtali við mbl.is að aðgerðum björgunarsveita sé að ljúka. Verið sé að færa tvö slösuð um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar við Búrfell.

Jón segir að sleði konunnar hafi farið fram af hengju og annar sleði á eftir henni, sem lenti á fyrri sleðanum og fékk konan því seinni sleðann ofan á sig. Ekki er hægt að segja til um líðan hennar að svo stöddu en Jón telur að hún hafi hlotið nokkuð alvarlega áverka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert