Ekki verður heimilt að greiða arð út úr fyrirtækjum sem sem taka brúarlán, ný lán með ríkisábyrgð sem stjórnvöld hyggjast veita fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir miklum tekjusamdrætti vegna kórónuveirufaraldursins.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í færslu á Facebook. Þá verður sömu fyrirtækjum einnig óheimilt að kaupa eigin hlutabréf, en skilyrðin munu gilda meðan á ríkisábyrgð stendur. Skipuð verður sérstök eftirlitsnefnd með framkvæmd brúarlána, sem ætlað er að halda ráðherrum og alþingi upplýstu.
Með brúarlánum mun ríkið gangast í ábyrgð fyrir helmingi bankalána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40% tekjufalli vegna áhrifa faraldursins. Áætlað er að heildarlánafjárhæð verði um 70 milljarðar króna og því ríkisábyrgð af 35 milljörðum. Gera stjórnvöld ráð fyrir að allt að helmingur lána muni ekki endurgreiðast, sem hefði í för með sér að 17,5 milljarða króna kostnaður félli á ríkið.
Töluvert hefur verið rætt um arðgreiðslur stöndugra fyrirtækja sem hyggjast nýta sér úrræði stjórnvalda vegna kórónuveirunnar. Má þar nefna hinar svokölluðu hlutabætur, þar sem fólki sem hefur lent í skertu starfshlutfalli vegna veirunnar er gefinn kostur á að þiggja atvinnuleysisbætur að hluta til að mæta tekjutapi. Ríflega 17.000 umsóknir um slíkar bætur hafa borist.
Fjölmörg fyrirtæki hafa nýtt sér úrræðið og lækkað starfshlutfall þorra starfsmanna sinna. Þeirra á meðal eru fyrirtæki sem síðustu ár hafa malað gull. Má þar nefna Bláa lónið, sem í fyrrasumar greiddi fjóra milljarða í arð en sagði í vikunni 164 starfmönnum upp og bauð 400 til viðbótar upp á skert starfshlutfall.
Í samtali við mbl.is á föstudag var Katrín spurð hvort hún teldi óeðlilegt að stöndug fyrirtæki nýttu sér þessa leið. Sagðist hún ekki vilja dæma einstök fyrirtæki. „Auðvitað er það svo að við reiðum okkur á að atvinnulífið sýni ábyrgð. En meginmarkmiðið er að verja afkomu fólks.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/27/gera_rad_fyrir_20_30_thusund_umsoknum/