Víðir: „Mistök af minni hálfu“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir ekki rétt að skipulagðar æfingar íþróttafélaga hafi farið fram þrátt fyrir samkomubann. Segir hann að um misskilning hafi verið að ræða og málið hafi ekki verið kannað nægilega fyrir upplýsingafund almannavarna sem fram fór í dag. 

Fram kom í máli Víðis á upplýsingafundinum að dæmi væru um að allt að 50 manns hefðu komið saman á æfingu íþróttafélags. Sagði hann að fjórar tilkynningar hefðu borist vegna starfs íþróttafélaga, þrátt fyrir ítrekun ÍSÍ um að hafa ekki slíka dagskrá. 

Víðir segir í samtali við mbl.is að við nánari athugun hafi komið í ljós að ekki hafi verið um æfingar íþróttafélaga að ræða. 

„Við tókum þessum ábendingum of beint án þess að hafa lagst í nægilega rannsóknarvinnu sjálf. Þetta voru bara mistök af minni hálfu að halda þessu fram. Við erum búin að skoða þetta hjá þessum fjórum íþróttafélögum sem voru nefnd og þetta á sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Víðir. 

Víðir segir að um hafi verið að ræða börn og ungmenni sem komu saman og klæddust íþróttafötum merktum þeim fjórum liðum sem tilkynnt voru. 

„Við þurfum að ræða það á morgun hvernig eigi að beina því til krakka að koma ekki saman í svona stórum hópum. Við munum örugglega fá íþróttafélögin með okkur í þetta. Við erum búin að vera í samskiptum við nokkur íþróttafélög í dag og þau taka þetta mjög alvarlega og vilja gera hlutina vel. Forsvarsmenn þeirra sem ég talaði við í dag voru alveg miður sín yfir þessu.“

Fullt af góðu fólki sem fékk að heyra það 

Víðir baðst einnig afsökunar á Twitter í kvöld á að hafa farið með rangt mál á blaðamannafundi al­manna­varna. Sagði Víðir að fjögur knattspyrnufélög væru að æfa í laumi, þrátt fyrir strangt samkomubann vegna kórónuveirunnar. 

Breiðablik var meðal þeirra félaga sem var ásakað um að halda æfingar en Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri félagsins, vísaði þeim orðrómi á bug fyrr í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert