Aðgerðirnar sem slíkar mjög karllægar

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þor­steinn Víg­lunds­son, þingmaður Viðreisn­ar, seg­ir sjálfsagt að skoða hvort end­ur­greiðsla virðis­auka­skatts ætti að nái til fleiri iðngreina, eft­ir að efna­hags- og viðskipta­nefnd þings­ins samþykkti breyt­ing­ar­til­lög­ur á stjórn­ar­frum­varpi þess efn­is um helg­ina að end­ur­greiðsla á virðis­auka­skatti muni ekki aðeins ná til fram­kvæmda við íbúðir og sum­ar­hús held­ur einnig til bílaviðgerða. 

Frum­varpið sem um ræðir er stjórn­ar­f­um­varp um aðgerðapakka til að mæta efna­hags­leg­um áhrif­um í kjöl­far heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru nái það fram að ganga. 

„Til þess að aðgerðin raun­veru­lega virki þarf hún að ná til þjón­ustuliða sem eru lík­leg­ir til að verða sæmi­leg­ir að um­fangi í kostnaði, þannig að fólk ein­fald­lega telji þetta skipta máli,“ seg­ir Þor­steinn í sam­tali við mbl.is. 

Hanna Katrín Friðriks­son, þing­flokks­formaður Viðreisn­ar, sagði í sam­tali við mbl.is í morg­un eft­ir fund þing­flokks­formanna með þing­for­seta að gera megi at­huga­semd við að aðgerðir í frum­varp­inu nái frek­ar til hefðbund­inna karlastarfa en kvenn­astarfa. 

„Ég get al­veg tekið und­ir þá gagn­rýni að aðgerðirn­ar sem slík­ar eru mjög karllæg­ar. Í breyt­ing­ar­til­lög­um minni­hlut­ans eru viðamikl­ar aðgerðir gagn­vart ný­sköp­un­ar- og tæknifyr­ir­tækj­um, þar sem eru kannski jafn­ari kynja­hlut­föll en í hefðbundn­um iðngrein­um. En það þarf að finna leiðir til að horfa til örvun­ar á hag­kerf­inu gagn­vart hefðbundn­um kvenna­störf­um,“ seg­ir Þor­steinn. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður og þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriks­son, þingmaður og þing­flokks­formaður Viðreisn­ar. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Ágrein­ing­ur fjár­fest­ing­ar­hluta aðgerðanna

Reiknað er með að frum­varpið verði af­greitt á Alþingi í dag en önn­ur umræða hófst á þing­fundi í morg­un að lokn­um óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um. 

Stjórn­ar­andstaðan á þingi hef­ur lagt fram sam­eig­in­leg­ar til­lög­ur um 30 millj­arða fram­kvæmd­ir á þessu ári til viðbót­ar við þeim til­lög­um upp á 20 millj­arða sem rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt. Spurður um sam­stöðu um aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar á þing­inu seg­ir Þor­steinn að auðvitað ríki „ágrein­ing­ur varaðandi bandorm­inn“, það er frum­varpið sem er til umræðu nú, en að minni­hlut­inn styðji fram­gang máls­ins. 

„En við telj­um að það þurfi að ganga lengra. Það er meiri ágrein­ing­ur um fjár­fest­ing­ar­hluta aðgerðanna, það er fjár­auk­ann og þeirra aðgerða sem gripið er til þar náðist ekki sam­komu­lag í fjár­laga­nefnd,“ seg­ir Þor­steinn. 

„Það þarf að hafa það í huga að við erum að sjá al­gjör­lega for­dæma­laus­an fjölda ein­stak­linga sem eru að verða fyr­ir veru­legri tekju­skerðingu þessi mánaðamót og það verður að koma með meiri af­ger­andi hætti með beina inn­spýt­ingu inn í efna­hags­lífið til að spyrna okk­ur út úr þessu ástandi þegar sótt­varnaaðgerðum lýk­ur,“ bæt­ir hann við.



mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert