Samkomubannið gildi út apríl

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir hyggst leggja það til við heil­brigðisráðherra í dag að þær aðgerðir og sam­komu­bönn, sem verið hafa í gildi og áttu að gilda til 13. apríl, muni gilda áfram út apríl. 

Þetta kom fram á dag­leg­um upp­lýs­inga­fundi al­manna­varna og land­lækn­is í dag. 

„Við eig­um eft­ir að ná toppn­um og von­andi mun sú spá ræt­ast að við náum hon­um fyrri hluta apríl, en í ljósi mik­ils álags á sjúkra­hús­inu, þá sér­stak­lega gjör­gæslu­deild­irn­ar, þá held ég að það sé óhjá­kvæmi­legt að við höld­um áfram þeim aðgerðum sem hafa verið í gangi og þeim sam­komu­bönn­um sem hafa verið hér,“ sagði Þórólf­ur. 

„Því mun ég leggja það til í dag við heil­brigðisráðherra að við mun­um halda áfram með þær aðgerðir, þau sam­komu­bönn, sem hafa verið í gildi og áttu að gilda til 13. apríl, að þau muni áfram gilda út apr­íl­mánuð. Seinni part­inn í apríl verði þá end­ur­skoðað hvað við mun­um gera.“

Hann tók fram að aðgerðirn­ar séu í sí­felldri end­ur­skoðun og það verði gert áfram í ljósi far­ald­urs­ins, þ.e. hvort það þurfi að herða þær eða hugs­an­lega slaka á þeim. „Ég á ekki von á því að það verði gert þá en fyrr en eft­ir apr­íl­mánuð og þá verður það kynnt nán­ar þegar þar að kem­ur hvernig það verður gert, í hversu mörg­um skref­um og hvað það muni taka lang­an tíma.“

Nú reyn­ir á út­haldið og sam­stöðuna

Þórólf­ur tók fram að nú reyni virki­lega á út­haldið og sam­stöðuna. „Því skora ég á alla að standa sam­an um þær aðgerðir sem eru í gangi þannig að okk­ur tak­ist sem best að hindra fram­gang þess­ar­ar sýk­ing­ar. Það er mik­il­vægt að við höld­um þær leiðbein­ing­ar sem gilda um hrein­læti, sýk­inga­varn­ir, fjar­lægðarmörk og sam­komutak­mark­an­ir.

Og sér­stak­lega vil ég leggja áherslu á þær leiðbein­ing­ar sem við höf­um gefið út varðandi viðkvæma hópa. Það er mjög mik­il­vægt að við höld­um áfram að standa vörð um það. Og það er mjög mik­il­vægt að þeir ein­stak­ling­ar sem eru eitt­hvað veik­ir, með önd­un­ar­færa­sýk­ingu, kvef, hita og hósta, að þeir loki sig af, fari ekki inn­an um fólk, fari ekki inn­an um viðkvæma hópa, geri vart við sig svo það sé hægt að taka frá þeim sýni og rann­saka,“ sagði sótt­varna­lækn­ir. 

Þórólf­ur tók enn­frem­ur fram, að veir­an muni ekki virða frí­daga eða pásk­ana. Því sé mik­il­vægt að halda áfram með þess­ar aðgerðir. 

Þá lagði hann áherslu á mik­il­vægi sýna­töku hjá ein­stak­ling­um sem upp­fylli skil­yrði fyr­ir sýna­tök­um. Og benti um leið á sýn­tök­ur hjá Íslenskri erfðagrein­ingu sem séu að fara af stað með slembiúr­taks­rann­sókn til að kanna raun­veru­lega dreif­ingu á veirunni í sam­fé­lag­inu. Hann hvatti fólk til að taka þátt í þeirri rann­sókn, sem muni gefa góða inn­sýn varðandi áfram­haldið og næstu skref. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert