„Þetta kom nú bara óvænt til skal ég segja þér,“ segir Svandís Fjóla Ómarsdóttir, sem býr ásamt sambýlismanni sínum, Hirti Halldórssyni, í Storhaug-hverfinu í Stavanger í Noregi. „Laufey vinkona mín kíkti til mín og ég nefndi við hana hvort við ættum ekki bara að skella okkur í göngutúr. „Eigum við ekki bara að drífa okkur á Preikestolen?“ sagði ég við hana og það varð úr,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.
Svo fór að þær Laufey gengu á Preikestolen 20. mars, en þessi klettur sem gnæfir í um 600 metra hæð yfir Lysefjorden í Rogaland, ekki langt frá Stavanger, er einn helsti ferðamannasegull svæðisins og ganga á fjórða hundrað þúsund manns upp á Predikunarstólinn ár hvert, gönguleið sem kostar sæmilega vant útivistarfólk tæplega eina klukkustund frá bílastæðinu fyrir neðan.
Varla líður sá dagur að stóllinn er ekki þéttsetinn og minnkuðu vinsældir þessa annálaða norska áfangastaðar síst eftir að lokaatriði kvikmyndarinnar Mission Impossible 6: Fallout var tekið þar upp haustið 2017 eins og mbl.is greindi frá á sínum tíma.
„Nú bar hins vegar svo við að ég var bara ein þarna uppi sem var sérstök upplifun. Ég hef oft gengið þarna upp og Preikestolen er almennt bara eins og mauraþúfa, nánast röð að komast þarna upp. Við mættum kannski tíu manns, bílastæðin voru tóm, þetta var ekki beint venjulegur dagur,“ segir Svandís þegar hún rifjar upp gönguferðina til eins vinsælasta ferðamannastaðar Rogaland.
Svandís starfar í Konserthuset í Stavanger. Þó reyndar ekki um þessar mundir. „Ég er bara permitteruð [tímabundin starfshvíld fólks á norskum vinnumarkaði sem þó jafngildir ekki uppsögn en er vægara úrræði], það er búið að aflýsa öllu. Stemmningin er alveg þokkaleg í bænum en ég gæti ekki verið á vinnumarkaði núna hvort sem er, allir leikskólar eru lokaðir og ég verð að vera heima með barnið,“ segir Svandís.
Hún segir íbúa Stavanger þó nokkuð hressa. „Fólk fer í gönguferðir og hreyfir sig. Ég átti afmæli á föstudaginn og við vinkonurnar hittumst bara á Facetime og fengum okkur rauðvín,“ segir Svandís Fjóla og skellir upp úr við tilhugsunina.
Hjörtur Halldórsson húsasmiður er sambýlismaður Svandísar Fjólu. Hann hefur þó tekið skarpa beygju á smíðaferlinum síðan þau fluttu til Noregs, þar sem þau kynntust á sínum tíma, og er nú langt kominn með nám í félagsráðgjöf í Stavanger.
„Noregur var nú ekkert draumaland til að flytja til en hér var ekkert mál að fá vinnu,“ rifjar smiðurinn upp og segir frá því þegar hann fékk vinnu sem þjónn á veitingastaðnum Flod & Fjære úti fyrir strönd Stavanger fyrir nær áratug, eftir að bankakerfið á Íslandi hrundi svo eftirminnilega.
„Þetta áttu bara að verða fjórir mánuðir en nú eru liðin ellefu ár,“ segir Hjörtur sem svo fór að starfa við að meta vatnstjón fyrir norsk tryggingafyrirtæki.
„Mér fannst svo magnað hvað fólkið tók manni vel, ég hef aldrei upplifað að vera útlendingur hérna í Noregi, maður er svona litli bróðir bara,“ segir Hjörtur sem nú er að ljúka háskólanámi í félagsráðgjöf í Stavanger. Hvað skyldi hafa rekið hann í það?
„Ég er bara mannvinur, ég hef svo gaman af að vinna með fólki,“ segir Hjörtur sem lýkur senn BA-námi í félagsfræðum sínum. Auðnaðist honum að fá aðgang að námi sem 350 nemendur sóttu um en 80 var hleypt í. „Mig langar til að starfa á sviði fangelsismála eftir að ég lýk námi, það er svona helst þar sem hjarta mitt slær finnst mér,“ segir húsasmiðurinn fyrrverandi og á þar með lokaorðin í spjalli þeirra Svandísar Fjólu Ómarsdóttur frá Stavanger í Noregi.