Gagnrýndi Bjarna og vísaði til kökuskreytinga

Þórhildur Sinna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sinna Ævarsdóttir. mbl.is/Eggert

Ríkisstjórnin sætti gagnrýni á Alþingi í dag fyrir þá staðreynd að hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í um eitt ár. „Við höfum engan áhuga á að semja við ykkur,“ fullyrti Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, að skilaboð ríkisstjórnarinnar væru.

Karl Gauti Hjaltason, samflokksmaður Birgis, hafði þar áður kallað eftir því að frekari umræða færi fram á Alþingi þessa dagana, sem ætti að geta átt sér stað án þess að auka smithættu á meðal þingmanna.

Birgir fylgdi í kjölfarið og sagði ríkisstjórnina lítilsvirða hjúkrunarfræðinga með því að hafa ekki enn gert kjarasamninga við þá. Skilaboð ríkisstjórnarinnar, með konu í stóli forsætisráðherra og konu í stóli heilbrigðisráðherra, til hjúkrunarfræðinga, stærstu kvennastéttar landsins, væru þau að enginn vilji væri til að gera nýja kjarasamninga.

Athugasemdirnar komu fram undir fundarliðnum „Fundarstjórn forseta“ og benti forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, þingmönnunum á að hvorki forsætis- né heilbrigðisráðherra væru til svara í dag. Vatt hann þinginu í óundirbúnar fyrirspurnir.

Komið færandi hendi með bleika köku

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hélt þá uppteknum hætti en beindi sínu erindi til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Sagði hún það á hans vakt að hjúkrunarfræðingar væru samningslausir. Vísaði hún til þess að Bjarni hefði verið í forsvari fyrir HeForShe-átakið, kynn­ingar­átaki UN Women, þar sem karl­menn um all­an heim voru hvatt­ir til að taka þátt í bar­átt­unni fyr­ir jafn­rétti kynj­anna, og meðal annars skreytt köku í tilefni þess.

„Þegar hæstvirtur fjármálaráðherra var forsætisráðherra í stutta stund kom hann færandi hendi á HeForShe-viðburð í New York með bleika köku sem hann skreytti sjálfur. Á viðburðinum sagðist ráðherrann vonast til þess að síðar meir yrði hans minnst fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til að auka jafnrétti kynjanna,“ sagði Þórhildur Sunna.

„Stuttu síðar sprengdi uppreist æra ríkisstjórn hæstvirts ráðherra og hann varð fjármálaráðherra á ný. Eftir stendur að hæstvirtur ráðherra heldur því að minnsta kosti fram á tyllidögum að hann styðji jafnrétti kynjanna. Að hann sé fyrir hana,“ bætti hún við og vísaði þannig til heitis átaksins.

Þórhildur Sunna sagði Bjarna hafa haft hvert tækifærið á fætur öðru til að sýna í verki að hann meti störf kvenna til jafns við störf karla.

„Hann hefur haft mörg ár til þess, sem karl í valdastöðu. En þrátt fyrir þessu fögru fyrirheit, þrátt fyrir fagurgala um jöfn laun fyrir sambærilega vinnu og þrátt fyrir bleiku kökuskreytinguna, þá er það á vakt hæstvirts ráðherra sem ekki nást kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert

Samningslotan skilað verulega miklu

Bjarni reis þá úr stóli forsætisráðherra, þar sem hann sat að líkindum til að virða tveggja metra regluna svokölluðu. Sté hann í pontu og sagðist myndu láta vera að svara „ósmekklegum útúrdúr“ Þórhildar Sunnu um HeForShe-átakið. 

„Þar höfum við lagt bara hreinlega verulega mikið af mörkum, með fjöldamörgum viðburðum, og höfum fengið mikið hrós fyrir,“ sagði ráðherrann. „Þannig ég átta mig ekki á því hvaða erindi upprifjun á því átaki á inn í umræðuna í dag. Mér finnst þetta ósmekklegt.“

Bjarni benti á að viðræður hefðu verið í gangi við hjúkrunarfræðinga um kjör þeirra allt frá því áður en samningar þeirra urðu lausir. „Samningslotan, sem nú stendur yfir, hefur skilað verulega miklu,“ sagði ráðherrann og bætti við að sérstakt átak á Landspítalanum á undanförnum árum hefði gert slíkt hið sama.

Til dæmis hefði verið unnið í þremur mismunandi átökum inni á stofnuninni að því að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og gera starfið meira aðlaðandi. Það sé að skila sér nú í því að í miðlægum nýjum kjarasamningum væri að verða grundvallarbreyting á vaktafyrirkomulagi hjúkrunarfræðinga og annarra stétta.

Samkomulag hefði náðst um þetta atriði, sem hefði verið meginatriði stéttarinnar í þessari kjaralotu. Vaktavinnufólk þyrfti samkvæmt þessu að vinna færri vinnustundir í hverri viku. Bjarni sagði það verkefnið núna að búa þannig um hlutina að allir hjúkrunarfræðingar geti notið góðs af niðurstöðunni og fengið þegar upp væri staðið betri kjör.

Vaktavinna með líf í húfi

„Hæstvirtur ráðherra er skiljanlega viðkvæmur gagnvart spurningum um heilindi hans í jafnréttismálum. Er það nema von að kona spyrji,“ sagði Þórhildur Sunna þá.

„Ráðherrann var rétt í þessu að mæla fyrir fjárfestingarátaki sem stenst engar kröfur um kynjuð fjárlög. Hann ætlar að eyða mörgum milljörðum í hefðbundin karlastörf en fæst svo ekki til að ræða af yfirvegun um löngu tímabæra og sjálfsagða kjarabót hjúkrunarfræðinga — 97% kvennastéttar.“

Benti hún á að vitað væri að hjúkrunarfræðingar væru með um 12% lægri meðallaun en aðrar starfsstéttir með álíka menntun. Starf þeirra fæli í sér meira álag og meiri ábyrgð en vinna flestra annarra.

„Þetta er vaktavinna með líf í húfi, og aldrei eins og nú, eins og meira að segja ráðherra hlýtur að vera ljóst í miðjum mannskæðum heimsfaraldri. Hvað þarf til svo að hæstvirtur ráðherra hætti að skreyta kökuna með lélegum afsökunum og gefi hjúkrunarfræðingum sanngjarna sneið af kökunni?“

Þróunin betri í tíð Bjarna en nokkru sinni fyrr

Bjarni tók til svara og sagði lífskjarasamningana hafa sett ákveðið viðmið. Ríkið hefði nú þegar náð samningum við um það bil helming ríkisstarfsmanna. Um grundvallaratriði þeirra hefðu þegar tekist samningar. Í samningalotunni við hjúkrunarfræðinga væri einnig, að hans mati, þegar búið að nást samkomulag um þau grundvallaratriði sem mest áhersla var lögð á.

„Ef háttvirtur þingmaður vill raunverulega skoða hvernig kjör hjúkrunarfræðinga hafa þróast, í minni tíð sem fjármálaráðherra, þá hlakka ég til að sjá þann samanburð. Vegna þess að kaupmáttur og launaþróun þessarar stéttar hefur verið betri í minni tíð sem fjármálaráðherra heldur en nokkru sinni áður. Það er sú einkunn sem ég mun fá, vilji háttvirtur þingmaður raunverulega fara ofan í þennan samanburð.“

Verkefnið núna sé að ljúka samningagerðinni þar sem niðurstaðan verði kjarabót fyrir hjúkrunarfræðinga. „Það er markmiðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert