„Hryggjarstykkið í heilbrigðisþjónustunni“

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans segir heilbrigðiskerfið ekki virka án hjúkrunarfræðinga og spyr hvernig sé hægt að láta hjá líða í meira en ár að gera við þá kjarasamninga.

Jón Magnús Kristjánsson skrifar í pistli á Facebook að kórónuveirufaraldurinn haldi áfram að taka á innan heilbrigðiskerfisins. COVID-göngudeildin sinni nú um 1.000 einstaklingum og að búið sé að tvöfalda fjölda rúma á gjörgæslu. Til þess þurfi mjög margar mismunandi starfsstéttir, svo sem fólk til að þrífa snertifleti og flytja fólk á milli, sjúkraliða og ritara. 

Stærsti hópurinn eru svo hjúkrunarfræðingarnir — hryggjarstykkið í heilbrigðisþjónustunni, eins og Páll forstjóri hefur endurtekið kallað þá. Þetta er ómissandi hópur ótrúlegra einstaklinga sem brenna fyrir að aðstoða þá sem leita til okkar,“ skrifar Jón Magnús og biður fólk sem ekki hefur lent í því að ímynda sér að hafa greinst með COVID-19. 

Það séu hjúkrunarfræðingar sem hringi í fólk daglega og veikist fólk alvarlega séu það hjúkrunarfræðingar sem fara í hlífðarbúnað, jafnvel allan vinnudaginn, og sinna og hjúkra fólki aftur til heilsu.

„Hvernig er hægt að lækka laun þessa hóps í miðjum COVID-faraldri? Hvernig er hægt að fara á fætur og horfa á sjálfan sig í spegli þegar maður ber ábyrgð á þeirri  ákvörðun?“ spyr Jón Magnús. „Hundskist til að semja við hjúkrunarfræðinga!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert