Jóhann Ólafsson
„Vandinn fer ekkert frá okkur eins og ég held að allir sjái,“ segir Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi og fráfarandi 1. varaforseti ASÍ. Vilhjálmur hefur ekki átt í frekara samtali um stöðu á vinnumarkaði vegna kórónuveiru síðan hann, Ragnar Þór Ingólfsson og Harpa Sævarsdóttir sögðu sig úr miðstjórn ASÍ.
Þau vildu að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði yrði skert tímabundið en því var hafnað og sögðu þau sig úr miðstjórninni í mótmælaskyni.
Vilhjálmur hefur áhyggjur af því að vandinn eigi „bara eftir að aukast“ eins og hann orðar það í samtali við mbl.is. Forystufólk í verkalýðshreyfingunni þurfi að huga að því að félagsfólk þess haldi störfum í niðursveiflu.
„Ég hef fengið fjölda áskorana um að það skipti máli að við séum þarna inni. Það gleður mann að finna að starfskrafta okkar innan verkalýðshreyfingarinnar eru metnir. Það skiptir máli að okkar rödd heyrist. Okkar verk styðja það,“ segir Vilhjálmur.
Hann kveðst ekkert pirra sig á því að heyra aðra verkalýðsleiðtoga tala um „sorglega afstöðu“ þremenninganna sem yfirgáfu miðstjórn ASÍ.
„Það eru miklar tilfinningar hjá öllum og það er ekkert grín að horfa upp á sína félagsmenn missa atvinnu eða lenda í skertu starfshlutfalli,“ segir Vilhjálmur og bætir við að undanfarið ár hafi verið erfitt hjá hans fólki á Akranesi.
„Að mínu mati er ekkert óeðlilegt að í svona baráttu séu skiptar skoðanir en þá þarf að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Því miður tókst það ekki í þetta skiptið.“