Aldrei að vita nema maður sé með veiruna

Svala Ásdísardóttir er heima hjá sér í Svíþjóð, allt að …
Svala Ásdísardóttir er heima hjá sér í Svíþjóð, allt að því fullviss um að vera með COVID-19. Það væri þó andstætt stefnu sænskra stjórnvalda að ganga úr skugga um það, þar sem ljóst er að Svala er ekki í lífshættu vegna veikinda sinna. Ljósmynd/Facebook

Svala Ásdísardóttir er búsett í Ystad á Skáni í Svíþjóð og starfar þar sem blaðamaður og kennari. Hún er í óvenjulegri stöðu: Hún er sannfærð um að vera með COVID-19 en henni er ráðið frá því að fara og láta prófa sig. Það er ekki gert í Svíþjóð nema sjúklingur sé í lífshættu og þurfi bráðnauðsynlega á læknisaðstoð að halda.

Magapílur breyttust í beinverki, sem breyttust í liðverki, síðan kom höfuðverkurinn og ofan á hann hitinn, síðan hurfu flest einkennin en eftir sat ólýsanleg þreyta dögum saman, fullkomið orkuleysi. Þannig lýsir Svala því sem virðast hafa verið einkenni COVID-19, en úr því verður ekki skorið að sinni, nema að því leyti sem læknar hafa sagt henni að líklega sé það veiran sem herjar á hana.

Svíar fara ekki sömu leið og aðrar þjóðir í baráttu sinni við kórónuveiruna. Þar er samkomubann öllu rýmra en annars staðar; veitingahús og skólar eru víðast hvar enn opnir. Svíþjóð greinir sig um leið frá öðrum í þessu veigamikla atriði: Þar er ekki lögð sama áhersla á skimun og rakningu og til dæmis á Íslandi, heldur virðist lífið eiga að ganga að nokkru leyti sinn vanagang, nema viðkvæmir hópar eru einangraðir algerlega.

Fyrirmælin eru skýr: Ef þú ert veikur í einhverjum skilningi, með kvefeinkenni þess vegna, áttu að halda þig heima í tvær vikur. Þeir sem eru veikir fyrir og viðkvæmir fyrir veirunni eiga síðan allir að halda sig heima. En þeir sem eru hraustir og geta tekið þátt í samfélaginu eiga að gera það, að breyttu breytanda; virða ber tveggja metra mannhelgi og aðra grundvallarsmitgát.

Spurning um að einangra Stokkhólm

Svala segir að enda þótt hundfúlt sé að fá ekki að ganga úr skugga um að hún sé með veiruna sé það skiljanlegt á sinn hátt. „Ég veit auðvitað hvernig staðan er í Svíþjóð. Hér búa 10 milljónir manna og ef annar hver maður ryki út og léti mæla sig við minnsta kvef færi hérna allt á hvolf,“ segir hún.

Þar sem hún búi séu flestir nokkuð slakir enn um sinn og heilbrigð skynsemi ráði för, sem felist í að fólk sé lítið á ferð og gæti sín mjög þegar svo ber undir. Á Skáni hafa ellefu látist af völdum veirunnar en í öllu landinu um 370. Af þeim eru 225 í Stokkhólmi. „Umræðan snýr þess vegna að því hér núna hvort ekki væri æskilegt að einangra Stokkhólm alveg,“ segir Svala.

Að sögn Svölu hefur í Stokkhólmi að vonum verið leitast við að hefta útbreiðslu veirunnar og einangra viðkvæma staði. Sú einangrun hefur þó ekki farið snurðulaust af stað. Smit hafa greinst á 29 elliheimilum í Stokkhólmi, sem er mjög hátt hlutfall. Stokkhólmur er sá staður í Svíþjóð sem er langverst leikinn af faraldrinum, enda langfjölmennasti staður í Svíþjóð og álagið og umferðin eftir því.

Miðað við að heilbrigðiskerfið þoli útbreiðsluna

Í Ystad á Skáni eru menn tilbúnir að takast á við aukinn smitfjölda, komi hann til, segir Svala. Hún ræddi við starfsmenn sjúkrahússins vegna starfa sinna sem blaðamaður fyrir mánuði og þá þegar hafði verið ráðist í að koma upp sérstöku tjaldi utan sjúkrahússins, auk annarra aðgerða. Þar er því allt í viðbragðsstöðu.

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa vakið athygli fyrir rólyndisleg viðbrögð við ástandinu og aðgerðir sem öðrum hefðu ekki þótt nægilega róttækar. Nú er sænska stjórnin að taka við sér en skerðing á persónufrelsi er að vonum viðkvæmt mál. Tillögu stjórnarinnar um aukna heimild til slíks fram til júní var hafnað af íhaldsflokknum Moderatarna, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Á næsta sólarhring ætti ný tillaga að líta dagsins ljós.

Þegar allt lék í lyndi: Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, ásamt …
Þegar allt lék í lyndi: Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, ásamt Katrínu Jakobsdóttur við Hellisheiðarvirkjun síðasta sumar. Starfssystkinin fara nú ólíkar leiðir til að stemma stigu við heimsfaraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í viðtali við Dagens Nyheter hefur Stefan Löfven lýst því yfir að aðgerðum stjórnvalda sé ætlað að tryggja að útbreiðsla veirunnar verði þannig að heilbrigðiskerfið ráði við hana. Kúrva veirunnar verði flött út, þó að það sé með öðrum aðferðum en annars staðar. Og vonast er til að það taki stuttan tíma, svo að ganga megi í að endurreisa efnahaginn úr rústunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert