Dauðsföllin minna á hvað veiran getur verið skæð

Alma D. Möller, landlæknir.
Alma D. Möller, landlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dauðsföll af völdum COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, minna okkur á hvað veiran getur verið skæð. Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Alls hafa sex látið lífið hér á landi sökum kórónuveirunnar.

„Það er umtalsverður fjöldi sem veikist alvarlega og COVID-19 leggst þyngra á þá sem eldri eru og þar er dánartíðnin hæst og þess vegna höfum við lagt ofuráherslu á að vernda þá sem eldri eru,“ sagði Alma jafnframt. 

Engin sértæk meðferð er til við kórónuveirunni sem stendur og ítrekaði Alma að gjörgæslumeðferð ein og sér væri ekki lækning.

„Gjörgæslumeðferð er ætlað að styðja við starfsemi líffæra, eins og með öndunarvél, lyfjum og fleiri tækjum, meðan líkaminn er að vinna á veirunni. Því miður gengur það ekki alltaf og tölur að utan benda á að það er töluverð dánartíðni meðal þeirra sem leggjast inn á gjörgæslu. En við vitum líka að heilbrigðisstarfsfólk og vísindamenn um allan leggja kapp á að þróa meðferð og menn eru stöðugt að læra,“ sagði Alma.   

Landlæknir segir það ljóst að róðurinn muni þyngjast næstu vikurnar og fleiri veikjast og látast. „Við þurfum að hlúa hvert að öðru og sjálfum okkur,“ sagði Alma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert