Ekki tilefni til að grípa til heildstæðra aðgerða

„Okkar ábyrgð er í fyrsta lagi sú að sinna þeim …
„Okkar ábyrgð er í fyrsta lagi sú að sinna þeim embættum sem við erum kjörin til að sinna og í öðru lagi að tala okkur niður á lausnir og standa við þær ákvarðanir sem eru teknar á vettvangi ASÍ.“ Ljósmynd/ASÍ

„Þetta hefur ekki verið tekið fyrir aftur á vettvangi ASÍ og það er ekki útlit fyrir að þetta verði rætt aftur,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, um hugmynd Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, og Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, um tímabundna lækkun mót­fram­lags at­vinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóði.

Bæði Ragnar og Vilhjálmur sögðu sig úr miðstjórn ASÍ í kjölfar óánægju með aðgerðal­eysi vegna bágr­ar stöðu á vinnu­markaði af völdum útbreiðslu kórónuveiru. Ragnar gagnrýndi svo forystu ASÍ í pistli sem hann birti á Facebook í dag og ræddi hugmynd þeirra Vilhjálms frekar. 

Tillagan var felld innan ASÍ sem og tillaga um frestun launahækkana. 

„Þetta hefur náttúrlega verið tekið fyrir á vettvangi ASÍ áður og við ræddum okkur niður á ákveðna niðurstöðu og ég stend að sjálfsögðu við þá niðurstöðu sem samþykki er fyrir á vettvangi ASÍ,“ segir Drífa. 

Aðgerðir þyrftu að vera í stærra samhengi

Spurð hvort nú sé til skoðunar að grípa til einhverra annarra aðgerða til þess að verja störf í landinu segir Drífa:

Ef það á að grípa til einhverra aðgerða þá þarf það að gerast í stærra samhengi, á vettvangi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Það er í raun og veru ekki tilefni til að grípa til einhverra heildstæðra aðgerða. Ákvarðanir sem varða lífeyrisréttindi til framtíðar eru mjög afdrifaríkar og þegar slíkar ákvarðanir eru teknar er eins gott að vera með það á hreinu hvernig landið liggur.“

Drífa segir að ASÍ eigi í mjög góðu samtali við sína félagsmenn og því ættu raddir þeirra að fá að heyrast hvað umræddar aðgerðir varðar.

„Ég virkjaði samninganefnd Alþýðusambandsins um leið og þessi staða kom upp. Þar eru formenn allra stærstu samtakanna.“

Alltaf skiptar skoðanir innan hreyfingarinnar

Spurð hvort nægilega mikil samstaða sé innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að takast á við þessa erfiðu stöðu, með tilliti til þess að formenn tveggja stórra verkalýðsfélaga hafi sagt sig úr miðstjórn ASÍ, segir Drífa:

„Það hafa alltaf verið mjög skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar en okkar ábyrgð er í fyrsta lagi sú að sinna þeim embættum sem við erum kjörin til að sinna og í öðru lagi að tala okkur niður á lausnir og standa við þær ákvarðanir sem eru teknar á vettvangi ASÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert