Kynna frekari aðgerðir eftir páska

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin mun kynna áframhaldandi efnahagslegar aðgerðir sem og félagslegar aðgerðir vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar eftir páska. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og tekur skýrt fram að aðgerðir í sóttvarna- og heilbrigðismálum séu í algjörum forgangi hjá ríkisstjórninni, þær aðgerðir trompi allar aðrar aðgerðir. 

Eins og áður hefur komið fram verður samkomubanninu aflétt í áföngum. Nú eru áætlanir um afléttingu samkomubannsins í vinnslu en þær eru í höndum heilbrigðisyfirvalda, að sögn Katrínar.

Nánast allt flug liggur niðri og er hugsanlegt að sú staða vari lengi. Katrín segir þó að vöruflutningar til landsins séu tryggðir.

„Það eru engir hnökrar á því og það er höfuðáhersla á milli okkar viðskiptalanda að viðhalda tryggum vöruflutningum.“

Enn sér ekki til lands

Spurð hvernig stjórnvöld geti tryggt að þróun í atvinnu- og efnahagsmálum komist hægt og rólega af stað að nýju eftir samkomubann segir Katrín:

„Við höfum forgangsraðað aðgerðum okkar í sóttvarna- og heilbrigðismálum í gegnum þennan faraldur og það eru aðgerðir sem trompa allar aðrar aðgerðir. Þegar kemur að þeim tímapunkti að við treystum okkur til þess að aflétta einhverjum af þessum takmörkunum þá mun það verða í einhvers konar áföngum en það sér ekki til lands enn þá hvað varðar þróun faraldursins. Það er ekkert einstakt við Ísland.“

Katrín fundaði með Ursulu Von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fyrr í dag vegna faraldursins. 

„Það er nokkurn veginn sama staða uppi innan Evrópusambandsins. Þar eru menn í fyrsta lagi að tala um að þeir sjái ekki alveg fyrir hvenær faraldurinn fari í rénun og í öðru lagi að þá þurfi að fara í áfangaskipta afléttingu aðgerða.“

„Þetta mun taka tíma“

Katrín segir að stjórnvöld haldi samfélaginu nú í hægagangi enda um gríðarlega alvarlegt heilbrigðisvandamál að ræða.

„Við erum í nánum samskiptum við aðila vinnumarkaðarins um það hvernig við höldum samfélaginu gangandi með þeim úrræðum sem nú þegar hafa verið kynnt og öðrum sem við munum vonandi kynna væntanlega eftir páska. Bæði áframhaldandi efnahagslegar aðgerðir en líka félagslegar aðgerðir.“

Spurð hvort takmarkanir verði áfram eftir að samkomubanni verður aflétt segir Katrín:

„Þetta mun taka tíma. Þessu verður aflétt í áföngum og við munum áfram fylgjast mjög grannt með þróun faraldursins þegar að því kemur að aflétta einhverjum takmörkunum vegna þess að við viljum ekki taka neina áhættu sem felur í sér að hann geti blossað upp aftur.“

En hvenær er hægt að segja að faraldrinum sé lokið? Þegar fá smit greinast hérlendis eða jafnvel engin? 

„Nú er gallinn auðvitað sá að eitt er þróun faraldursins hér á landi og annað er þróun hans úti í heimi. Við erum að sjá þetta í mismunandi tímaplönum hjá mismunandi löndum. Það mun auðvitað líka hafa áhrif á það hvernig takmörkunum er aflétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert