Segja kröfu ASÍ og NS óskiljanlega

Brynja Baldursdóttir er framkvæmdastjóri CreditInfo
Brynja Baldursdóttir er framkvæmdastjóri CreditInfo mbl.is/Eggert Jóhannesson

Creditinfo segir kröfu Neytendasamtakanna (NS) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að Creditinfo hætti að skrá einstaklinga og fyrirtæki á vanskilaskrá vegna greiðsluvanda sem tengja má við kórónuveirufaraldinn óskiljanlega. Þetta kemur fram í tilkynningu en þar segir að krafan sé líklega á misskilningi byggð.

Þar er áréttað að það eru kröfuhafar og/eða lánveitendur sem óska eftir skráningu á vanskilaskrá, ekki Creditinfo. 

„Miðað við öll þau úrræði sem verið er að innleiða í dag vegna COVID-19 hjá lánveitendum, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, þá er ljóst að allir eru virkilega að vanda sig við að koma til móts við þá sem lenda í vandræðum vegna þessa ástands og ljóst að mjög margir munu fá nauðsynlega fyrirgreiðslu og þ.a.l. ekki lenda á vanskilaskrá.“

Vanskilaskrá nauðsynlegt tæki

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að kröfur berist ekki til Creditinfo til skráningar fyrr en eftir að minnsta kosti 40 daga vanskil.

„Því eru þær kröfur sem er verið að skrá t.d. núna og munu berast næstu mánuði til skráningar til komnar vegna aðstæðna fyrir COVID-19. Þá verður einnig nægur tími fyrir viðkomandi aðila að fá fyrirgreiðslu eða þiggja úrræði hjá sínum lánardrottnum áður en til skráningar kemur.“

Að mati Creditinfo er vanskilaskrá nauðsynlegt tæki til áhættustýringar fyrir íslenska lánveitendur en ekki síður til þess að vernda neytendur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert