Faraldurinn er á niðurleið

Þórólfur Guðnason á fundinum í dag.
Þórólfur Guðnason á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kórónuveirufaraldurinn er á niðurleið hér á landi eins og staðan er núna. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi. „Við getum sagt að við séum búin að ná toppnum. Fjöldi þeirra sem er að batna er meiri en nýgreindra,“ sagði hann.

Hann sagði að ljóst að ekki mætti mikið út af bregða og að hlutirnir gætu breyst með nýjum hópsýkingum. „Ég held að við getum glaðst yfir þeirri stöðu sem við erum í núna,“ sagði hann og nefndi að samfélagslegt smit væri lítið. Dreifingin væri lítil á landinu. 

Hann sagði að við fylgdum bestu spá varðandi útbreiðslu veirunnar miðað við spálíkanið en verstu spá varðandi þá sem eru á gjörgæslu.

Fylgjast þyrfti áfram með framþróun veirunnar og sjá hvað gerðist á næstu dögum.

Alls eru 11 á gjörgæslu, þar af 9 á Landspítalanum og 2 á Akureyri. 6 eru í öndunarvél á Landspítalanum og einn á Akureyri. Einn var tekinn af öndunarvél á Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert