Laun æðstu ráðamanna hækkuðu um áramótin

Þjóðkjörnir fulltrúar og æðstu embættismenn ríkisins fengu launahækkun 1. janúar síðastliðinn í samræmi við lög þar sem launafyrirkomulag þjóðkjörinna fulltrúa, dómara og hópa embættismanna var lögfest.

Vísir greindi fyrst frá málinu. Hækkunin nemur 70 til 200 þúsund krónum, að því er kemur fram í tilkynningu.

Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is að hækkunin sem tók gildi núna hefði átt að koma til framkvæmda í júlí í fyrra í samræmi við lögin en henni hafi verið frestað til áramóta í tengslum við lífskjarasamningana. Hún segir að hækkunin núna í samræmi við lögin.

Nýlega barst tilkynning um að Alþingi hefði samþykkt að fresta breytingu á launum sem áttu að taka gildi 1. júlí næstkomandi og taka þær í staðinn gildi 1. janúar 2021.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að sú frestun hafi verið ákveðin eftir breytingartillögu fjármála- og efnahagsráðherra, til efnahags- og viðskiptanefndar, við bandorm um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru. Eftir að frestunin var samþykkt barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu erindi frá embætti forseta Íslands þar sem þess var óskað að launahækkun forseta yrði einnig frestað til næstu áramóta.

Fram kemur að hækkunin sem tók gildi 1. janúar 2020 hafi verið framkvæmd samkvæmt lögboðnum fyrirmælum í takt við launavísitölu ársins 2018, sem segir til um um 6,3% hækkun. Laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna höfðu ekki verið hækkuð síðan í október 2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert