Rúmlega 20 stiga hiti um páskana

Um páskana verður útifatnaðurinn á við þann sem viðföng ljósmyndarinnar …
Um páskana verður útifatnaðurinn á við þann sem viðföng ljósmyndarinnar eru klædd í. Inni í húsinu verður þó mikla betur veður, raunar slíkt, að þar getur maður klæðst því sem manni sýnist. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að hitastigið innandyra toppi hið ytra um hátt í 20 stig þegar best lætur yfir páska. Meðalhiti gæti þar orðið um 20° en jafnvel farið þónokkrum stigum ofar hjá kulvísum.

Veðurspáin utandyra er síðan einnig þokkaleg fyrir páskana. Þetta verða rólegheit á við það sem landsmenn hafa mátt þola í vetur, hæglætisveður rétt yfir frostmarki víðast hvar á landinu með smá úrkomu þegar svo ber við.

Það sem meiru varðar er þó vitaskuld veðráttan innandyra, þar sem ætlast má til að allir sem geta haldi sig yfir páskana. Og um þau efni er ekki nema gott eitt að segja: „Flest hús á Íslandi eru vel kynt, þannig að ætla má að veðrið verði gott innandyra,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Rólegt með smá lægð á föstudaginn

Öllu gríni sleppt, þó að tilmæli almannavarnadeildar um að ferðast heima séu reyndar ekki grín, verður á morgun skírdag rólegt í veðri, með lítilsháttar úrkomu á Suðausturlandi. Sólin sýnir sig fyrir norðan en minna annars staðar, þar sem víðast verður frekar svalt, rétt yfir frostmarki eftir kalda nótt.

Á föstudaginn kemur dálítil lægð yfir landið með suðaustanátt og rigningu eða slyddu á sunnan- og vestanverðu landinu. Strekkingsvindur þar, en hægari vindur og bjart á norðausturhluta landsins.

Það styttir upp og rigningin klárast á laugardeginum, úrkoma lítil sem engin fyrir norðan, en einkar svalt á Norðausturlandi.

Á páskadaginn sjálfan er útlit fyrir hæga sunnanátt og nokkuð skýjað veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka