Umferð að aukast um Borgarnes

Lögreglan á Vesturlandi segir að umferðin hafi aukist núna rétt …
Lögreglan á Vesturlandi segir að umferðin hafi aukist núna rétt fyrir páska. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við sjáum að umferðin er að aukast, það er meira að gera í búðunum í Borgarnesi. Það er ljóst að sumir ætla að fara í sumarbústað um páskana,“ segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Vesturlandi. 

Hann hvetur fólk sem þarf ekki nauðsynlega að vera á ferðinni til að halda sig heima líkt og mælst er til þess að fólk geri. Ferðist innanhúss um páskana eins og Almannavarnir hafa margoft óskað eftir.  

„Við biðlum til fólks að halda fjarlægð og vanda sig. Það er ekki útgöngubann,“ útskýrir hann. Þar af leiðandi er ekki hægt að skikka fólk til að yfirgefa bústaðina og halda sig heima. 

Lögreglan kannar fjölmargar ábendingar um brot á sóttkví 

Umferðin hefur snarminnkað um vegi landsins eftir að kórónuveiran kom til landsins. Lögreglan á Vesturlandi sér um allar hraðamyndavélar á landinu og merkir þessa breytingu því vel. Íslendingar vanda sig við aksturinn og keyra hægar og örfáir ferðamenn aka götur landsins. 

Lögreglunni hafa borist fjölmargar ábendingar um brot á sóttkví. Þær ábendingar eru kannaðar en engin þeirra hefur reynst á rökum reist þegar haft hefur verið samband við rakningarteymið. Í morgun kannaði lögreglan eitt mál sem ekki reyndist rétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert