Aldrei stoltari af því að vera Íslendingur

Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. mbl.is

„Þetta gekk vel en var heilmikil vinna og verkefnin voru löng. Það er sorglegt að lenda í því að þurfa að aðstoða svona marga sem eru á ferðinni þegar fólk á að vera heima. Þetta er erfitt fyrir okkur, reynir á mannskapinn og er erfitt í skipulagningu,“ segir Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar.

Um nýliðna helgi fóru björgunarsveitir landsins, einkum á Suðurlandi, í fjölmörg útköll og sinntu að minnsta kosti 100 manns sem þurftu aðstoð vegna ófærðar. Nánast allir voru Íslendingar enda varla erlendur ferðamaður á landinu um þessar mundir. Frá föstudeginum 3. apríl til og með mánudeginum 6. apríl voru 327 björgunarsveitarmenn kallaðir út í rúmlega 220 verkefni. 

Þrjár fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar, ein á Kjalarnesi og á Laugarvatni. Sú síðarnefnda var opnuð tvívegis um helgina, á laugardegi og aftur á sunnudegi. 

Framganga fólks um liðna helgi olli vonbrigðum

Þór viðurkennir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með framgöngu fólks um liðna helgi. Fólk var margoft hvatt til að halda sig heima bæði vegna veðurs og einnig til að auka ekki álag á viðbragðsaðila.

Hann segir slæmt að þetta tvennt skarist; annars vegar kórónuveirufaraldurinn og hins vegar óveðrið sem varð til þess að opna þurfti fjöldahjálparstöðvar á sama tíma og huga þurfi sérstaklega vel að öllum sóttvörnum. „Þetta skarast því miður og mér finnst það óhugnanlegt,“ segir Þór. 

„Þessir fjórir síðustu mánuðir eiga enga samsvörun í okkar starfi. Það hefur verið svo mikið að gera. Til viðbótar kemur þessi COVID-faraldur. Það hefur verið gríðarlega mikil vinna innan okkar eininga að skipuleggja starfið okkar,“ segir Þór.

Á þessum mánuðum, frá desember og fram í apríl, hefur nánast hvert óveðrið á fætur öðru gengið yfir landið með rafmagnsleysi, snjóflóðum og dauða búfjár svo fátt eitt sé tínt til. Veðurviðvaranir hafa verið í nánast öllum regnbogans litum, gular, appelsínugular og rauðar. 

Eftir að kórónuveiran stakk sér niður í íslensku samfélagi hefur björgunarsveitin líkt og aðrir viðbragðsaðilar þurft að taka upp nýtt verklag sem kallar á meiri þrif, breytta samskiptahætti og skipulag.   

Skilrúm, sótthreinsun og hópaskipting

„Það verður allt flóknara. Plastskilrúm hafa verið sett í fjölmarga bíla til að skilja á milli bílstjóra og farþega. Við þurfum til dæmis að sótthreinsa öll faratæki rækilega eftir notkun. Þetta þýðir að það er mikil vinna og er liður í því að vera alltaf klár í næsta verkefni,“ útskýrir Þór. Liðsmönnum í sveitunum hefur einnig verið skipt upp í nokkra hópa og enginn samgangur er á milli þeirra. „Við höfum þurft að grípa til alls konar aðgerða til að takast á við þau verkefni sem bíða okkar,“ segir hann.  

Þór segist skynja hræðslu í þjóðfélaginu við kórónuveiruna og það eigi líka við um liðsmenn björgunarsveitanna sem óttast að geta ekki sinnt sínu hlutverki. Líkt og víða í samfélaginu hafa margir í björgunarsveitunum þurft að fara í sóttkví. Enn sem komið er hefur það ekki komið niður á starfi björgunarsveitanna því fjölmargir eru virkir í starfinu.  

Slökkviliðið notar húsnæði björgunarsveita

Dregið hefur úr öllu innra starfi björgunarsveitanna og því er lítill umgangur um húsnæði sveitarinnar. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur því fengið afnot af húsnæði björgunarsveitanna á þremur stöðum. Starfsstöðvum slökkviliðsins hefur verið skipt niður til að takmarka þann fjölda starfsmanna sem missa úr vinnu ef smit greinist.

„Það er dæmi um frábært samstarf og sjálfsagt að slökkviliðið nýti húsið líka,“ segir hann. Huga þarf vel að því að björgunarsveitarfólk og starfsmenn slökkviliðsins nýti ekki húsið á sama tíma vegna smithættu. 

Liðsmenn björgunarsveitarinnar að störfum.
Liðsmenn björgunarsveitarinnar að störfum. mbl.is/Eggert

„Það er auðvitað bara að halda sig heima eins og við höldum áfram að segja fólki. Hlýða Víði og fara varlega í öllum sínum athöfnum,“ segir Þór spurður hvað fólk eigi að gera um páskana. 

Hann tekur fram að þrátt fyrir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum um liðna helgi segist hann almennt ánægður með viðbrögð Íslendinga. „Ég hef aldrei verið stoltari af því að vera Íslendingur en núna eftir að hafa fylgst með því hvernig langflest okkar haga sér. Við erum öll í þessu saman og við erum öll almannavarnir,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert