Ósáttur við höfnun Lúsífers

Ingólfur Örn Friðriksson vill skipta millinafninu sínu Örn út fyrir …
Ingólfur Örn Friðriksson vill skipta millinafninu sínu Örn út fyrir Lúsífer. Mynd: úr einkasafni

„Við eigum öll að standa jöfn gagnvart lögum óháð trúarbrögðum. Að hafna nafninu Lúsífer á forsendum þess að það sé nafn djöfulsins í einni trú, kristni, finnst mér mismunun. Og mismunun á grundvelli trúarbragða er stjórnarskrárbrot.“ Beiðni Ingólfs Arnar Friðrikssonar um að breyta millinafni sínu í Lúsífer var hafnað af mannanafnanefnd á dögunum. Hann fékk hugmyndina að nafnabreytingunni þegar hann sá að sama nafni með enskri stafsetningu var hafnað af nefndinni. 

Lykilnafn í trúarbrögðum Ingólfs

„Ég er búinn að vera skráður í Church of Satan síðan 2001 og er búinn að íhuga nafnabreytingu í mörg ár út frá lítilli hefð meðlima kirkjunnar að taka upp nöfn sem tengjast satanisma. Ég skil að nafninu hafi verið hafnað með enskri stafsetningu. Nefndin verður að fara eftir lögum og Lucifer fellur ekki að íslensku eins og lög um mannanöfn gera ráð fyrir, en mér datt í hug að með rökstuðningi fengi ég íslensku stafsetninguna Lúsífer í gegn.“

Röksemdafærsla Ingólfs í beiðninni um nafnabreytingu sneri meðal annars að því að um væri að ræða lykilnafn í hans trúarbrögðum. Honum var hafnað á þeim forsendum að nafnið gæti orðið nafnbera til ama. „Röksemdafærslan heldur ekki vatni að mínu mati, ef nafnið væri nafnbera til ama væri það ekki notað. Nafnið Ljótur hefur ekki verið notað síðan 1950, þótt það sé leyfilegt nafn. Það er ekki notað af augljósum ástæðum. Svo eru önnur nöfn í svipuðu hlutverki leyfð, eins og Loki, sem er að mörgu leyti hliðstæða í norrænni goðafræði. Nafnið Ári er leyft og það þýðir púki eða illur andi, Lúsífer er í það minnsta fallinn engill.“

Lúsífer hefur verið tákngerður á marga vegu í list í …
Lúsífer hefur verið tákngerður á marga vegu í list í gegnum tíðina. Mynd: skjáskot af Wikiart af verki Alexandre Cabanel, Fallinn engill

Litlu að bæta við úrskurðinn

Aðalsteinn Hákonarson formaður mannanafnanefndar segir að litlu sé að bæta við úrskurðinn, að lagaákvæðið sem úrskurðurinn byggir á sé skýrt (3. mgr. 5. gr.): „Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.“

Hann segist bera við því að horft sé fram hjá því í umræðunni um þetta ákvæði að nafn sem einu sinni hafi verið fært á mannanafnaskrá er þaðan í frá öllum heimilt. „Af þeim sökum getur mannanafnanefnd ekki einskorðað mat sitt við aðstæður þess sem sækir um að nafn sé fært á mannanafnaskrá heldur verður líka að taka tillit til þess að ef nafnið er fært á skrána geta foreldrar gefið barni það nafn.“

Ingólfur er ekki ánægður með þessa niðurstöðu nefndarinnar. Hann sendi erindi varðandi málið til umboðsmanns Alþingis og bíður nú svars.

Telur að fullorðið fólk eigi að ráða sínum nöfnum

Mannanafnanefnd er reglulega á milli tannanna á fólki en Ingólfur er ekki einn þeirra sem vill leggja nefndina niður. Frekar telur að hann að hlutverk hennar þurfi að breytast. „Mögulega ætti mannanafnanefnd bara að að dæma í málum barna, en fullorðið, sjálfráða fólk á að mér finnst rétt á því og vera treyst fyrir því að velja sér nöfn.“

Lúsífer er ekki bara vinsæll efniviður í listsköpun fortíðarinnar. Netflix …
Lúsífer er ekki bara vinsæll efniviður í listsköpun fortíðarinnar. Netflix framleiðir þætti um Lúsífer þar sem hann gengur meðal manna. Mynd: skjáskot af Netflix

Býst ekki við fordómum

Ingólfur hefur litlar áhyggjur af neikvæðum viðbrögðum við nafninu. „Ég held ég fái lítil viðbrögð ef einhver. Fólk er yfirleitt fljótt að samþykkja nöfn sem þeim þykir óvenjuleg. Möguleg neikvæð áhrif eru einhverjir fordómar sem eru trúarlegs eðlis, en ég held þeir hafi ekki áhrif á framgöngu mína í lífinu. Ég á erfitt með að trúa því að fólk sé svo þröngsýnt.“

Snýst um að trúa á sjálfan sig

Það eru til nokkur afbrigði satanisma og það sem Ingólfur aðhyllist kallast La Veyan-satanismi. „Þetta snýst í grunninn um trú á sjálfan sig, að það sé ekkert sem hjálpar okkur eða setur okkur í neinar aðstæður nema við sjálf. Við eigum að sækjast eftir því sem við viljum og ekki leyfa öðrum að halda okkur frá því, án þess að ganga lengra en er félagslega samþykkt. Þetta á að sjálfsögðu að gerast með fullri virðingu fyrir samfélagi og mönnum og án þess að traðka á öðrum, en snýst um að taka sjálfur stjórnina og treysta ekki á æðri máttarvöld. Þetta hefur í raun ekkert með helvíti að gera. Satanismi sprettur upp í samfélagi þar sem kristni er allsráðandi og Satan ákveðið andsvar, þess vegna verður hann líklega fyrir valinu. Hann er að mörgu leyti tákn fyrir mannlegt eðli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert