Um það bil helmingur Íslendinga sem greinst hefur með kórónuveiruna er einkennalaus, að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Í dag hafa tæplega 10% Íslendinga verið prófaðir fyrir kórónuveirunni eða 34.125, ef ekki er tekið mið af því að einhverjir hafi farið oftar en einu sinni í próf og einhverjir þeirra sem hafi farið í próf hérlendis séu ekki íslenskir ríkisborgarar.
Bandaríska tímaritið USA Today fjallar um aðgerðir íslenskra stjórnvalda sem miðast að því að takmarka útbreiðslu hérlendis sem og rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar á veirunni í umfangsmikilli grein á vefsíðu sinni sem birtist í dag. Þar er sagt að engin önnur þjóð hafi prófað svo hátt hlutfall sinna ríkisborgara en þar gleymist eflaust að taka frændur okkar Færeyinga með í reikninginn. Í Færeyjum hafa um 5.500 verið prófaðir en Færeyingar eru um 50.000 talsins og er hlutfallið þar því um 11%.
Í greininni segir að Íslendingar séu líklega betur til þess fallnir að veita ákveðnar upplýsingar um kórónuveiruna en flestar aðrar þjóðir eins og staðan er í dag, samkvæmt sérfræðingum, alþjóðlegum embættismönnum og öðrum sem vinna nú að því að bregðast við ástandinu.
„Stærð staða sem kórónuveiran leggst á skiptir máli. Það er engin tilviljun að þær þjóðir sem eru að standa sig best í að takast á við faraldurinn eiga það sameiginlegt að vera smáar,“ segir William Hanage, faraldsfræðingur við Harvard-háskóla.
Í grein USA Today er tekið skýrt fram að Íslendingum hafi ekki tekist að svara erfiðustu spurningunum um kórónuveiruna sem liggja á almenningi um allan heim. Spurningum um smit, efnilegustu bóluefnin og meðferðirnar, hvers vegna veiran herjar frekar á suma en aðra og spurningum um það hvort aflétting takmarkana á daglegu lífi fólks muni síðar verða til þess að faraldurinn muni blossa upp aftur.
Enn sem komið er kann Ísland að vera ein besta lifandi rannsóknarstofa á kórónuveiru sem við höfum, að sögn Kára Stefanssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Hann segir að um það bil helmingur þeirra sem greinst hafa með veiruna hérlendis séu einkennalausir.
„Þetta er svolítið ógnvekjandi,“ segir Kári. „Fólk gæti því verið að dreifa veirunni án þess að vita af því.“
Fleiri sérfræðingar hafa talið að stór hluti smitaðra fái engin einkenni en bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafa áður áætlað að um 25% þeirra sem smitast hafa af kórónuveiru séu einkennalaus.
Kári segir að lítið samfélagslegt smit sem standi annað hvort í stað eða fari minnkandi sýni að aðgerðir yfirvalda til að hefta útbreiðslu veirunnar séu að virka.
Í grein USA Today er sagt að ýmsir þættir valdi því að Ísland hafi staðið sig svo vel í að hefta útbreiðslu veirunnar. Fjarlægð Íslands frá öðrum þjóðum, mikil virðing Íslendinga fyrir vísindalegri þekkingu, læknismenntaðir sérfræðingar í framlínu í stað pólitískra, tæknivæddir innviðir ríkisins, almannavarnir sem eru vanar að takast á við eldgos og snjóflóð og vissulega smæð þjóðarinnar.
„Því smærri sem þjóðin er, því líklegra er að þú munir þekkja einhvern sem hefur orðið fyrir áhrifum af kórónuveirunni. Hvað sem stjórnvöld eða lögregluyfirvöld segja ert þú mun líklegri til að vilja taka þátt og taka tilmæli þeirra alvarlega vegna persónulegra tengsla, miðað við staði þar sem tugir milljóna búa og þú hefur kannski ekki dvalið í landshlutum þar sem smit koma upp eða þekkir fólk þar,“ er haft eftir Gesti Pálmasyni lögreglumanni í grein USA Today.