Framtíð ferðaþjónustunnar áfram björt þrátt fyrir erfiða tíma

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi komið skipt miklu fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustunni en að meira þurfi að koma til. mbl.is/Eggert

„Ég fer ekki ofan af því að framtíð ferðaþjónustunnar er áfram björt en við munum þurfa að ganga í gegnum mjög erfiða tíma þangað til sú framtíð birtist okkur aftur,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is.

Þórdís var spurð út í ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra í Fréttablaðinu fyrir helgi þar sem hann sagði að það mætti nánast slá því föstu að það yrði lítið úr ferðaþjónustu á þessu ári vegna kórónuveirufaraldursins.

Erum mjög háð ytri aðstæðum

„Það er alveg ljóst að við erum ekki að fara horfa fram á neina alvöruumferð í sumar. Þá erum við komin inn í haustið og það er auðvitað gríðarleg óvissa enda erum við mjög háð þessum ytri áhrifum, þ.e. hvað önnur ríki ákveða að gera og hvernig mál þróast hjá þeim,“ segir hún spurð hvort hún taki undir fullyrðingu seðlabankastjóra og bætir við:

„Ég ætla ekki að gerast spámaður um það hvort hingað komi nánast engir ferðamenn eða ekki en það er alveg ljóst að allar þær sviðsmyndir sem við horfum á eru miklu dekkri nú en í upphafi þessa faraldurs þegar við vonuðumst til þess að þetta yrði tímabundnara ástand en það verður.“

Staða ferðaþjónustunnar á heimsvísu grafalvarleg

„Þannig að staða ferðaþjónustunnar á heimsvísu er grafalvarleg, það er því miður bara þannig. Við erum ofboðslega háð ferðaþjónustu hér á Íslandi og það hefur breyst á örfáum árum þannig að áhrifin geta orðið töluverð.“

Hún gerir þó þann fyrirvara að það sé ekki fyrirséð hvernig þróunin verður, þ.e. hvenær ríki fari að opna landamæri, hvenær fólk muni treysta sér til að ferðast á nýjan leik og svo framvegis. Telur hún þó að Ísland hafi ákveðið forskot hvað það varðar enda sé öruggt að dvelja hér á landi, innviðir séu góðir og dreifbýli mikið.

„Ég ímynda mér að einhverjum ferðamönnum finnist ákjósanlegra að fara í slíkt ferðalag en að vera í neðanjarðarlestakerfi í stórborgum. Og jafnvel þó að alþjóðleg ferðaþjónusta muni taka tíma að jafna sig þá þurfum við ofboðslega lítið hlutfall af heildinni til þess að vera hér með mjög sterka atvinnugrein,“ segir hún.

Ferðaþjónustan varð fyrir höggi fyrir faraldurinn

Spurð hvort hún telji að samdráttur í ferðaþjónustunni síðastliðna mánuði hafi gert fyrirtæki verr í stakk búin til að takast á við hrunið í komu ferðamanna segir hún að vissulega hafi einhver fyrirtæki verið í erfiðri stöðu áður en kórónuveirufaraldurinn fór af stað.

Atvinnugreinin hafi orðið fyrir töluverðu höggi þegar WOW Air, sem flutti hálfa milljón ferðamanna til landsins árlega, hafi farið af markaði. Þá bendir hún á að við séum með gjaldmiðil sem gerir það að verkum að launakostnaður hér á landi, í alþjóðlegum samanburði, sé allt annar í dag en þegar ferðaþjónustan fór af stað af miklum krafti eftir hrun.

„En við erum auðvitað að horfa á algjörlega einstakar aðstæður sem er erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir nokkurt fyrirtæki í þessari atvinnugrein að búa sig undir,“ bætir hún við.

Þórdís segir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafi þegar kynnt og séu komnar til framkvæmda hafi skipt miklu máli fyrir ferðaþjónustuna en ljóst sé núna að þær aðgerðir muni ekki duga til. Ríkisstjórnin vinni nú að undirbúningi fyrir næstu aðgerðir en lítið sé hægt að segja til um þær á þessu stigi annað en að það þurfi að bæta í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert