Fyrsti þriðjungur apríl hefur verið kaldur hér á landi en um er að ræða köldustu aprílbyrjun í Reykjavík á öldinni. Meðalhiti í höfuðborginni er -0,1 stig, -2,7 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og -3,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Þetta kemur fram á bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings.
Best var aprílbyrjunin árið 2014, meðalhiti þá +6,0 stig. Á langa listanum er hitinn í 120.sæti (af 146). Hlýjast var 1926, meðalhiti +6,6 stig, en kaldast 1886, meðalhiti -4,4 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins -1,8 stig, -3,0 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, og -3,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er langt neðan meðaltals á öllum veðurstöðvum. Miðað við síðustu tíu ár er neikvæða vikið mest við Búrfell (-4,8 stig), en minnst á Steinum undir Eyjafjöllum (-1,9 stig).