Megum búast við áframhaldandi smiti í samfélaginu

Blaðamannafundur almannavarna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Blaðamannafundur almannavarna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Við megum búast við áframhaldaandi smiti í samfélaginu, reynsla annarra þjóða hefur sýnt það að smitið verður viðvarandi en hversu lengi er ómögulegt að segja. Það er því mikilvægt að vera áfram dugleg að taka sýni og við þurfum að vera viðbúin því að hópsýkingar geti áfram brotist út ef við gætum ekki að okkur og þurfum að halda áfram árvekni.

„Þetta þýðir það að stór hópur samfélagsins er líklega móttækilegur fyrir þessari veiru. Við vitum náttúrlega ekki nákvæmlega hvað hópurinn er stór en mótefnamælingar sem fyrirhugað er að gera síðar í mánuðinum munu væntanlega svara því betur. Allt þetta þurfum við að hafa í huga þegar við erum að hugsa um aðgerðir næstu mánaða og verðum að tryggja að faraldurinn fari ekki aftur á flug þannig að aðgerðir okkar þurfi að fara aftur á byrjunarreit.“

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna. Smitum síðastliðinn sólarhring fjölgaði um 14 en óvenjufá sýni voru tekin undanfarinn sólarhring að sögn Þórólfs. Einn lést vegna COVID-19-sjúkdómsins undanfarinn sólarhring. 

Takmarkanir líklega í gildi yfir sumartímann

Næstu skref eru að fylgjast mjög náið með framþróun faraldursins og við þurfum að bregðast mjög hart við staðbundnum sýkingum eins og gert hefur verið fram að þessu. Varðandi hvað tekur við eftir 4. maí segir Þórólfur ljóst að þá muni hefjast aðgerðir til að létta á þeim takmörkunum sem gripið hefur verið til til þessa.

Hann tók þó fram að það væri ekki til nein rétt aðferð til að aflétta takmörkunum og að þjóðir heimsins myndu gera það með mismunandi hætti eftir því sem yfirvöld í hverju landi teldu að hentaði best. 

Landsmenn verði búnir undir takmarkanir á stórar samkomur í sumar

Þetta verður hins vegar að gera á tiltölulega löngum tíma þannig að við séum nokkurn veginn viss um að faraldurinn blossi ekki upp að nýju. Þórólfur mun á næstu dögum senda tillögur um hvernig best sé að aflétta takmörkunum sem eru í gildi núna. Það verður þó líklega ekki fyrr en eftir páska. Engum af núverandi aðgerðum verður aflétt fyrr en eftir 4. maí.

Það verður að aflétta aðgerðum hægt í skrefum og hvert skref mun taka þrjár til fjórar vikur þannig að aflétting mun líklega ná yfir sumartímann. Ef það kemur hins vegar í ljós að aflétting aðgerða mun hafa í för með sér aukningu á sjúkdómnum kemur vel til greina að herða á aðgerðum aftur þannig að það borgar sig að fara frekar hægt. Þórólfur biður landsmenn að vera undir það búna að takmarkanir verði settar á stórar samkomur í sumar.

Aðgerðir eins og handþvottur, að spritta hendur, virða tveggja metra reglu og fleira verða líklega áfram í gildi út þetta ár. Þá mun þurfa að setja takmarkanir á komu ferðamanna til landsins og verið er að hugsa hvernig best sé að útfæra það. Þórólfur bindur ekki vonir við að bóluefni muni leysa stóru vandamálin varðandi kórónuveiruna og við verðum að reiða okkur áfram á þær aðgerðir sem við höfum notað undanfarið.

Ekki fleiri andlát en búist var við

Spurður hvort að fjöldi andláta sem hafa átt sér stað hér á landi séu fleiri en búist var við á þessum tímapunkti sagði Þórólfur að svo væri í raun ekki og að í byrjun hefði verið búist við fleiri gjörgæslutilfellum en raunin hefur verið. Hann telur að fjöldi andláta séu nokkurn veginn eins og búist við við þó að skiptar skoðanir hafi verið um það í byrjun faraldursins.

Hann sagðist ósköp ánægður með að faraldurinn hafi ekki náð að breiða mikið úr sér á Austurlandi en að það væri þó möguleiki að hann kæmi upp þar seinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert